HB Grandi er með 12,3% heildaraflahlutdeild samkvæmt nýlegri samantekt Fiskistofu. Aflaheimildir fyrirtækisins eru þannig lítillega umfram lögbundið hámark.

Samherji er í öðru sæti með 7,2%. Samanlagt ráða þessi tvö stærstu útgerðarfyrirtæki landsins yfir 19,5% af aflaheimildum og hefur hlutur þeirra aukist lítillega á undanförnum árum. Til að mynda var hlutur þeirra fyrir tveimur árum 18,9%.

Síldarvinnslan kemur upp í þriðja sætið úr því fjórða og Þorbjörn fellur fyrir vikið í fjórða sæti. FISK-Seafood er áfram í fimmta sæti eins og fyrirtækið var í upphafi fiskveiðiársins. Vinnslustöðin kemur  í sjötta. Athygli vekur að þegar skoðaðar eru tölur frá fyrri árum sést að hlutur Síldarvinnslunnar hefur vaxið nokkuð. Fyrir fimm árum var fyrirtækið í ellefta sæti með 3% hlut en er nú komið í þriðja sæti með 5,3% hlut.

Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 12% af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild í þorski ekki fara yfir 12%. Í ýsu, ufsa, grálúðu, steinbít, síld og loðnu má hún ekki fara yfir 20% og í karfa ekki yfir 35%.

Fyrirtæki sem eru yfir lögbundnu hámarki samkvæmt útreikningum Fiskistofu, fá bréf þar sem þeim er gefinn kostur á að andmæla eða lagfæra yfirráð sín yfir aflaheimildum til samræmis við ákvæðin um leyfilegt hámark heildaraflamarkshlutdeildar.