Samningar hafa verið undirritaðir á milli HB Granda og Skagans á Akranesi og 3X Technology á Ísafirði um nýjan og byltingarkenndan vinnslu- og lestarbúnað í Engey RE, Akurey AK og Viðey RE, nýja ísfisktogara félagsins sem verða smíðaðir á næstu misserum. Samningarnir byggja á þróunarsamstarfi HB Granda við félögin á undanförnum árum. Samningarnir eru tveir, annars vegar um búnað á vinnsludekki og hins vegar um sjálfvirkt flutningakerfi á körum. Verðmæti samningana er um 1.190 milljónir króna.
Samningarnir byggja á ítarlegum rannsóknum, hönnun og þróun búnaðar á vinnsludekki og í lest með það að markmiði að auka verulega nýtingu og gæði fisks, ásamt því að lágmarka kostnað og bæta vinnuaðstöðu sjómanna. Búnaður á vinnsludekki er jafnframt hannaður þannig að sérstök áhersla er lögð á aðstöðu til nýtingar slógs, lifrar og hrogna.