Stjórn Starfsmannafélags Hafrannsóknastofnunarinnar lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu mála í kjaradeilu háseta rannsóknaskipa stofnunarinnar við ríkisvaldið. Nú þegar hefur stofnmæling að haustlagi (haustrall) raskast og ef deilur leysast ekki sem allra fyrst er mikil hætta á að sú mæling verði fyrir bí, segir í ályktun stjórnarinnar.
Ennfremur segir: ,,Stofnmælingin gegnir sífellt veigameira hlutverki við stofnmat okkar helstu nytjastofna og hefur undanfarin 2 ár haft sama vægi og stofnmælingin í mars í stofnmati þorsks og ýsu. Samfara haustralli fer fram loðnuleit og mæling. Sú mæling hefur verið nýtt til að meta magn ungloðnu og var grundvöllur byrjunarkvóta fyrir núverandi vertíð. Skorað er á deiluaðila að ganga til samninga af fullum þunga og komast sem allra fyrst að samkomulagi.”