Heildarvísitala þorsks lækkaði talsvert frá árunum 2014 og 2015 og er nú svipuð og árið 2013. Þetta eru niðurstöður úr haustralli Hafrannsóknastofnunar sem kynntar voru í dag.
Hluta lækkunarinnar má rekja til lítils árgangs frá 2013 og að meðalþyngd sumra árganga hefur lækkað frá fyrra ári. Líklegt er að lækkunin sé að mestu vegna mæliskekkju líkt og var í vorralli milli áranna 2013 og 2014, segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun. Vísitala ársgamals þorsks (árgangur 2015) í vorralli 2016 benti til þess að árgangurinn væri stór og er það staðfest í haustrallinu. Vísitala tveggja ára þorsks, þ.e. árgangsins frá 2014, er einnig há.
Vísitölur þriggja til sex ára þorsks, árganganna frá 2010-2013 eru hins vegar lágar. Fyrstu vísbendingar um árganginn frá 2016 gefa til kynna að hann sé undir meðalstærð. Meðalþyngdir hækkuðu hjá 3, 4 og 6 ára þorski en lækkuðu í öðrum aldursflokkum frá fyrra ári. Hjá flestum aldursflokkum eru þær yfir meðaltali rannsóknartímans. Mest fékkst af þorski djúpt norðvestur, norður og austur af landinu, líkt og undanfarin ár.
Heildarmagn fæðu í mögum allra lengdarflokka þorsks var það minnsta síðan mælingar hófust árið 1996. Síðan 2012 hefur magn loðnu í þorskmögum verið mun minna en á tímabilinu 1996-2010. Líkt og undanfarin ár var mest af loðnu í þorskmögum út af vestanverðu Norðurlandi. Af annarri fæðu má nefna ísrækju, rækju, ljósátu, síld og kolmunna.
Stofnmæling botnfiska að haustlagi (haustrall) fór fram í 20. sinn dagana 29. september til 9. nóvember s.l. Rannsóknasvæðið var umhverfis Ísland allt niður á 1500 m dýpi. Alls var togað með botnvörpu á 375 stöðvum. Helsta markmið haustrallsins er að styrkja mat á stofnstærð helstu botnlægra nytjastofna á Íslandsmiðum með sérstakri áherslu á djúpkarfa, grálúðu og annarra djúpfiska. Auk þess er markmiðið að fá annað mat, óháð aflagögnum, á stofnstærð þeirra nytjastofna sem Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (vorrall) nær yfir, og safna upplýsingum um útbreiðslu, líffræði og fæðu tegundanna. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson RE og togarinn Ljósafell SU voru notuð til rannsóknarinnar.