Strax árið 2013 komst Charla Jean Basran að því að nærri 42 prósent hnúfubaka í hafinu umhverfis Íslands hafi einhvern tímann á lífsleiðinni flækst í veiðarfæri. Þetta voru bráðabirgðaniðurstöður sem fengust út úr rannsókn í tengslum við meistaraprófsverkefni hennar í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.
Hún er nú að ljúka enn frekari rannsóknir á hnúfubökum í tengslum við doktorsverkefni sitt við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. Þar er byggt á gögnum frá 14 til 15 ára tímabili og niðurstaðan virðist ætla að verða sú sama.
„Það bendir allt til þess að 42 prósent hvalanna séu með áverka sem sýna ótvírætt fram á að þeir hafi flækst í veiðarfærum,“ segir Charla.
Rannsóknir þessar eru byggðar á ljósmyndum sem hún hefur fengið frá bæði sjómönnum og fólki í hvalaskoðunarferðum.
„Við erum nú komin með gagnasafn um nærri 400 hvali frá 14 ára tímabili og höfum uppreiknað það yfir á allan stofninn hér við land.“
Tjón á veiðarfærum
Liður í rannsóknum hennar er að finna leiðir til að koma í veg fyrir eða draga að minnsta kosti úr því að hnúfubakar flækist í veiðarfæri. Þar er hún ekki einungis að hugsa um velferð hvalanna heldur ekki síður hagsmuni sjómannanna sjálfra, sem harma tjón á veiðarfærum.
„Ég er ekki bara talsmaður hvala heldur hef ég mikinn áhuga á því að finna leiðir til að bæta veiðarnar. Ég vil skoða báðar hliðar málsins og láta sjónarmið sjómannanna koma fram, því þeir líta sjálfir á þetta ákveðið vandamál fyrir veiðarnar.“
Hún fór í vetur út með loðnubát til að rannsaka hnúfubaka og skoða meðal annars hvort hljóðfælur myndu duga til að fæla þá frá veiðarfærunum.
„Þessar fælur eru festar efst á nótina og gefa frá sér hljóð. Sjómennirnir um borð sáu þetta svo sannarlega sem vandamál, því hvalirnir þegar hvalirnir flækjast í netin þá skemmast þau. Við vonum að þetta geti því gagnast öllum, því auðvitað vilja sjómennirnir ekki að veiðarfærin eyðileggist og aflinn tapist jafnvel.“
Hún segir enn vera óljóst hvort fælurnar hafi skilað árangri.
„Það sem við höfum séð lofar þó góðu. Að vísu er ekki víst að fælurnar dugi til að halda hvölunum í burtu, því þeir koma inn undir nótina en fælurnar eru efst við yfirborðið. Hins vegar sáum við að hvalirnir fóru út úr nótinni aftur í staðinn fyrir að synda beint í gegnum netið þar sem hljóðgjafarnir eru.“
Þessum tilraunum með hljóðfælur verður haldið áfram.
„Ef við getum með þessu komið í veg fyrir skemmdir á netunum þá er það sá árangur sem sjómennirnir vonast eftir.“
Hún segir erfitt að segja til um það út frá rannsóknum sínum á umgengni hvala við loðnunót hvort algengt sé að þeir verði fyrir miklum meiðslum af þeim sökum.
Netalagnir hættulegastar
„Ég held satt að segja að þeir verði sjaldnast fyrir alvarlegum meiðslum af loðnunót. Það er frekar að þeir skaðist þegar þeir synda í gegnum netalögn. Þá taka þeir netið oft með sér en þegar það gerist er erfitt að segja til um hvað gerist því netið glatast og ekkert er vitað um afdrif hvalanna. Ekki nema maður finni dýrið sjálft ennþá flækt í netið. Við sjáum slíkt einstöku sinnum gerast við Ísland, en það er ekki mjög oft.“
Charla er frá Kanada og hafði stundað ýmsar rannsóknir á hvölum þar. Hún kom hingað til að vinna að meistararitgerð sinni og komst þá að því að hnúfubakar eru farnir að verða meira áberandi hér en áður var.
„Þeir voru farnir að verða mikilvægir í ferðaþjónustunni hér og sjómenn verða meira varir við þá. Hvalir eiga sér líka langa sögu við Ísland þannig að það kom upp sú hugmynd að skoða betur hvað gerist þegar hvalir flækjast í veiðarfæri. Enginn hafði almennilega skoðað það hér við land þótt það hafi verið rannsakað annars staðar.“
Rannsóknir á þessu hafa einkum verið gerðar við Alaska og í Maineflóa í Bandaríkjunum. Niðurstöðurnar hennar hér hafa verið svipaðar og þar.
„Á báðum þessum stöðum eru fiskveiðar stundaðar í stórum stíl og mikið er um að hnúfubakar flækist þar í veiðarfæri. Hins vegar eru rannsóknir okkar á hljóðfælum með þeim fyrstu sem gerðar eru í heiminum. Hljóðfælur hafa verið notaðar nokkuð í Alaska en engar niðurstöður hafa enn verið birtar um það, þannig að þetta er frekar nýtt allt saman.“
Styttist í niðurstöður
Rannsóknir hennar hér við land eru langt komnar. Innan fárra vikna verða birtar niðurstöður úr rannsóknum á áverkum á hnúfubökum sem flækst hafa í veiðarfæru. Stutt er sömuleiðis í fyrstu niðurstöður úr rannsóknum hennar á hvalafælum en síðan þarf að vinna betur úr þeim og stefnt á birtingu innan árs.
Hnúfubökum hefur fjölgað töluvert hér við land undanfarin tíu ár og er heildarfjöldinn kominn upp í 12 þúsund dýr, en Charla segir að þessi tala hafi haldist stöðug í síðustu tveimur athugunum.
„Þetta þýðir líka að það er eftir því sem þeim fjölgar er meiri hætta á að þeir flækist í net.“
Sjálfri fannst henni einna mest spennandi að fylgjast með hvölunum þegar þeir koma að veiðarfærunum og sjá hvað gerist.
„Þeir komast í kynni við alls konar veiðarfæri. Það er vel þekkt að þeir flækist í netalagnir en svo var fróðlegt að fylgjast með þeim koma að loðnunótinni. Ég hef séð þá synda inn í loðnunótinni og svo hef ég séð þá með króka og línu á sér. Allt gefur þetta okkur miklar upplýsingar.“