Nærri 2 milljónir tonna af villtum fiski sem er veiddur við strendur Vestur-Afríku fer til framleiðslu á fóðri til laxeldis í Noregi á ári hverju. Þessu er haldið fram í skýrslu frá umhverfisverndarsamtökunum Feedback sem eru með höfuðstöðvar í Bretlandi og Hollandi. Þessar veiðar ógni afkomu og stuðli að næringarskorti meðal íbúa í Gambíu, Senegal og Máritaníu.
Sagt er frá þessu í seafoodsource.com. Samkvæmt skýrslunni eru smábátaveiðar í mörgum tilvikum eina afkomuleiðin fyrir samfélög frumbyggja í löndum Vestur-Afríku. Í skýrslu Feedback er því haldið fram að „fóðurfótspor“ norska laxeldisfyrirtækja samsvari um 2,5% af heildarveiði úr stofnum villtra fiska á heimsvísu. Þar kemur einnig fram að árleg framleiðsla á laxi í Noregi sé 27% minni en það magn af villtum fiski sem þarf að veiða til þess að framleiða fóður fyrir eldið. Áform séu uppi meðal norskra laxeldisfyrirtækja að þrefalda árlega framleiðslu í landinu þannig að hún nái 5 milljónum tonna árið 2050. Þetta muni leiða til þreföldunar á eftirspurn á villtum fiski til fóðurgerðar miðað við eftirspurnina á árinu 2020.
Hefði dugað til að fæða 4 milljónir manna
„Á sama tíma og laxeldisfyrirtækin halda því fram að „bláa byltingin“ sem þau standa fyrir stuðli að matvælaöryggi á heimsvísu, kyndir hröð aukning fiskeldis á iðnaðarskala undir nútíma nýlendustefnu eða matvælaheimsvaldastefnu,“ segir Natsha Hurley, talsmaður samtakanna.
„Fæðu- og næringarskortur fer vaxandi í þessum samfélögum og sjálfbærnimarkmið stórfyrirtækjanna duga ekki til að verja þau gegn fæðu- og næringarskorti sem tengist gríðarlegri eftirsókn laxeldisiðnaðarins eftir villtum fiski til fóðurgerðar.“
Samkvæmt útreikningum Feedback hefði fiskur af miðum Vestur-Afríkuríkjanna árið 2020 sem fór til fóðurgerðar laxeldisfyrirtækja, dugað til að fæða allt að 4 milljónir manns yfir allt árið. Fjórir stærstu fóðurframleiðendurnir, Mowi, Skretting, Cargill og Biomar, framleiða stærstan hluta alls fóðurs sem notað er til laxeldis í Noregi. Allir fengu þeir hráefni til fóðurframleiðslu úr fiski af miðunum við Norðvestur-Afríku.