Öll þjónusta Hampiðjunnar við fiskeldi, allt frá Færeyjum suður um Hjaltland og til Skotlands, er nú undir einum hatti eftir að dótturfyrirtækið Mørenot Scotland var fært undir stjórn Vónin eftir kaup Hampiðjunnar á Mørenot í fyrra. Nafni Mørenot Scotland var samhliða tilfærslunni breytt í Vónin Scotland.
Í frétt frá Hampiðjunni segir að með þessari breytingu megi ná fram umtalsverðri hagræðingu í rekstri og nýta betur þann slagkraft og þá sérfræðiþekkingu sem er til staðar innan fyrirtækjanna og í framhaldinu þjóna greininni enn betur.
Stöðvarnar á þessu svæði eru nú þrjár, í Norðskála í Færeyjum, Scalloway á Hjaltlandseyjum og Scalpay á Hebrides sem er eyjaklasi vestur af Skotlandi og er nefndur á íslensku Suðureyjar.
Þjónustustöðvum Hampiðjusamstæðunnar fjölgar
Á eynni Skye, sem liggur fast upp við vesturströnd Skotlands, er að hefjast bygging á fullkominni þjónustustöð við fiskeldið á vegum Vónin Scotland, í nánu samstarfi við Mowi sem telst vera stærsta laxeldisfyrirtæki heims. Áætlað er að stöðin verði tilbúin til notkunar haustið 2025.
Með þeirri stöð fjölgar fiskeldisþjónustustöðvum Hampiðjusamstæðunnar í 13 við N-Atlantshaf og að auki eru stöðvar á Spáni og á vesturströnd Kanada svo í heildina eru þær 15 talsins. Ekkert annað þjónustufyrirtæki við N-Atlantshaf hefur jafn viðamikla þjónustu við fiskeldisnet en það fyrirtæki sem kemst næst því rekur fimm stöðvar.
Færeyska fyrirtækið Vónin, sem Hampiðjan eignaðist árið 2016, hefur stöðugt aukið markaðshlutdeild sína í Skotlandi og með sameiningunni treystir það sterkt orðspor sitt á skoska fiskeldismarkaðnum með aðgangi að góðri og staðbundinni þekkingu sem er til staðar hjá Mørenot.
Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, segir sameininguna og uppbygginguna á Skye treysta stöðu Hampiðjunnar enn frekar á þessum mörkuðum og skapa tækifæri til að sækja fram og vaxa enn frekar í fiskeldisþjónustu með vaxandi fiskeldi á þessum svæðum.