Hampiðjan TorNet, dótturfyritæki Hampiðjunnar á Spáni, flytur starfsemi sína um set í mars og færir sig á milli bygginga innan hafnarsvæðisins í Las Palmas á Gran Canaria.

Hið nýja húsnæði er af svipaðri stærð og það sem fyrirtækið hefur verið í frá árinu 2010, eða um 1700 m². Í frétt frá Hampiðjunni segir að það sé mun hentugara fyrir starfsemina þar sem hún mun öll rúmast í einum sal en var í tveimur samliggjandi rýmum áður og talsverð hagræðing felst í því að geta verið með lager og framleiðslu veiðarfæra í einu og sama húsinu. Það er einnig betur tækjum búið og vinnuaðstaða starfsfólks batnar til muna við flutninginn og staðsetningin er einnig mun hentugri.

Henning Henningsson, framkvæmdastjóri Hampiðjan TorNet segir að húsið muni með fullnægjandi hætti sinna þeim þörfum sem líklegt er að fyrirtækið hafi fyrir netaverkstæði og lager í Las Palmas næstu árin.

„Aðkoma trukka og afhending veiðarfæra frá netaverkstæðinu mun einnig batna talsvert og mun þetta nýja hús á margan hátt bæta aðkomu og ásýnd fyrirtækisins. Hampiðjan er framsækið fyrirtæki og í örum vexti og því er aldrei að vita nema að rýmið verði nýtt til fjölbreyttari verkefna en eingöngu framleiðslu uppsjávarveiðarfæra næstu árin.“

Kjarnastarfsemi Hampiðjan TorNet verður áfram með óbreyttu sniði en fyrirtækið framleiðir flottroll og selur fylgihluti sem tengjast veiðarfærum. Helstu viðskiptavinir þess eru útgerðir sem stunda uppsjávarveiðar við vesturströnd Afríku, við Oman í Mið-Austurlöndum og á öðrum fjarlægum miðum. Hampidjan TorNet er einnig með starfsemi í Dakhla á Vestur-Sahara svæðinu í Marokkó þar sem rekið er vöruhús undir nafninu TorNet Maroc og þar verður engin breyting á starfsemi.