Um þessar mundir eru tíu ár liðin frá því félagið Icelandic Sustainable Fisheries var stofnað til þess að halda utan um sjálfbærnivottanir íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegi en frumkvæðið að stofnun félagsins varð til á nokkrum stöðum samtímis.
Upphafið má rekja til ársins 2010 og samvinnu sölufélagsins Sæmarks við nokkra framleiðendur.
„Þarna voru lítil og meðalstór fyrirtæki eins og Oddi á Patreksfirði, Hraðfrystihús Hellissands, Íslandssaga á Suðureyri og aðrir ágætir félagar, smærri fyrirtæki, og ég var hjá Sæmark sjávarafurðum á þeim tíma,“ segir Svavar Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Icelandic Sustainable Fisheries, en hann var þá sölustjóri hjá Sæmark sjávarafurðum.
Ekki alveg nógu grænir
Sæmark var á þessum tíma að selja þorsk og ýsu frá íslensku félögunum til smásölukeðjunnar Sainsbury‘s í Bretlandi, eins af stærstu kaupendum fisks þar í landi.
„Hjá Sainsbury‘s var mætur maður sem heitir Ally Dingwall og var svokallaður sjálfbærnistjóri yfir sjávarafurðunum hjá Sainsbury‘s. Hann sagði að frá sínum bæjardyrum séð værum við eins grænir og við getum orðið án MSC. Þið eruð að tikka í öll boxin nema ykkur vantar úttekt þriðja aðila til að segja mér að þið séuð eins sjálfbær og þið látið líta út fyrir að vera.“
Svavar segir að á þessum tíma hafi Sainsbury‘s einnig verið að kaupa norskan línufisk, bæði í gegnum Young‘s Bluecrest og frá Domstein.
„Þeir voru svolítið sniðugir hjá Sainsbury‘s því þeir kölluðu okkur saman á fund í höfuðstöðvum sínum í London. Þeir sögðu það alveg á hreinu, strákar, að við munum kaupa MSC-vottaðan fisk þegar og ef hann verður til. Og Norðmaðurinn varð fyrri til. Þeir náðu þarna fyrstu lendingu inn á Sainsbury‘s með vottaðan fisk.“
Opnaði dyr
„En þetta sýndi okkur bara svart á hvítu að yfir nóttu þá töpuðum við stærstu ýsulínunni okkar innan Sainsbury‘s, og það vildi bara svo til að þetta var stærsta línan okkar í ýsu á þessum tíma. Þannig að við vorum þarna með skólabókardæmi um, af hverju við ættum að fara í MSC. Þetta var náttúrlega fyrst og fremst gert til þess að verja þessi viðskipti, en um leið opnaði þetta auðvitað aðrar dyr. Því með þessu náðum við að opna aftur fyrir íslenskan fisk inn á Sviss.“
Á þessum tíma hafði Sviss lokað fyrir allan íslenskan fisk af því MSC-vottun vantaði.
„Gæði, afhendingaröryggi og verð höfðu ekkert að segja þar. Það var bara MSC eða ekki. En þarna gátum við yfir nóttu tekið 90% af smásölumarkaðnum í Sviss. Þannig að þetta sannaði sig. Við tryggðum Sainsbury‘s viðskiptin og tókum líka tvo stærstu súpermarkaðina í Sviss.“
Jafnvirði flökunarvélar
Það fór svo að Sæmark lagði út fyrir þessari fyrstu MSC-vottun hér á landi.
„Þetta var nýmæli að sölufyrirtæki myndi leggja út fyrir andvirði einnar góðrar flökunarfélar. Held að þetta hafi verið hátt í 30 milljónir sem þetta kostaði. En þetta var ákvörðun sem Sæmark tók.“
Það ríkti ekki endilega samhljómur innan greinarinnar um ágæti MSC á þessum tíma og til að byrja með var róðurinn ekki auðveldur og ákveðinnar tortryggni gætti gagnvart Marine Stewardship Council (MSC), sem upphaflega var stofnað af náttúruverndarsamtökunum WWF í samstarfi við smásölukeðjuna Unilever.
„En þetta var tímamótasamningur vegna þess að þar vorum við búnir að ná saman hópi íslenskra framleiðenda, kvótaeigenda, útgerðarmanna og vinnsluaðila, sem voru með þetta allt á sinni hendi, allt samt litlir og meðalstórir aðilar. Við réðum bara yfir einhverjum 4-5 þúsund tonnum af fiski, en það var nóg til þess að gera það sem við gerðum.“
Stofnfundur
Það var föstudaginn 22. júní 2012 sem stofnfundur Icelandic Sustainable Fisheries ehf. var haldinn. Sölusamtökin Icelandic Group hf. boðuðu til fundarins í tilefni af því að í apríl sama ár „fékk félagið vottun á sjálfbærum veiðum alls þorsk- og ýsuafla á Íslandsmiðum, samkvæmt staðli MSC“, eins og það var orðað í fundarboðinu. Vottunarskírteinin voru lögð inn í hið nýja félag og opnað fyrir aðgang annarra hagsmunaaðila að vottuninni. ISF varð þannig, eins og áfram segir í fundarboðinu frá 2012, „félag þeirra aðila sem telja sig geta haft hag af MSC-vottun afurða úr þessum fiskistofnum og hugsanlega öðrum fiskistofnum sem sótt yrði um vottun á síðar.“
Enda þótt Sæmark hafi lagt út fyrir þessari fyrstu MSC-vottun hér á landi þá var um svipað leyti hjá Samherja vinna í gangi við umsókn um vottun á síldveiðum. Þegar sú vottun var fengin lagði Samherji sitt skírteini inn til ISF og þannig fengu öll íslensk skip samtímis aðgang að síldarskírteininu.
Hjá Icelandic Group hafði einnig verið unnið að umsókn um vottun veiða allra íslenskra skipa á þorski og ýsu við Ísland. Á sama tíma hittist hjá Danica hópur stjórnenda og eigenda fleiri fyrirtækja sem hafði hug á að sækja um vottun fyrir sínar veiðar. Þessi hópur sá fljótt kosti þess að sameina vottunarverkefnin í eitt félag.
Opið öllum
„Þegar Icelandic Group var byrjað að skoða þetta á sama tíma þá fóru menn fljótlega að sjá að það væri verið að gera sama hlutinn þrisvar sinnum. Í staðinn fór fólk að hugsa þetta sem opin samtök fyrir alla og það frumkvæði varð til hjá þremur hópum samtímis sem sameinuðust í Icelandic Sustainable Fisheries,“ segir Kristinn Hjálmarsson, sem er verkefnastjóri félagsins.
Fyrsti stjórnarformaður ISF var Hans Ágúst Einarsson og hann vann að undirbúningi félagsins með Jan Thomsen í Danica og Friðrik Blomsterberg hjá Iceland Seafood. Þeir hafa hafa fylgt félaginu frá upphafi.
Nú tíu árum síðar eru nánast allar veiðar Íslendinga með sjálfbærnivottun samkvæmt stöðlum MSC. Auk veiða á þorski og ýsu eru veiðar á gullkarfa, ufsa, löngu, grálúðu, síld, loðnu, steinbít, grásleppu, skötusel, skarkola, blálöngu, keilu, þykkvalúru og rækju komnar með vottun samkvæmt MSC staðlinum. Alls eru þetta fimmtán tegundir, auk vottunar á þorsk, ýsu- og ufsaveiðum í Barentshafi.

Ekki sjálfgefið
„Það er ekki sjálfgefið að tegundir standist úttekt,“ segir Kristinn. „Tegundir hafa fallið á prófinu. Það getur gerst ef stofnar eru ekki nægilega sterkir, eða vegna áhrifa veiðanna á umhverfið eða aðrar tegundir. Við sóttum um vottun á steinbít og hlýra, steinbíturinn fékk vottun í annarri tilraun en hlýrinn komst ekki í gegnum matið.
En í heildina hefur okkur gengið mjög vel. Grásleppuveiðar misstu vottunina í eitt eða tvö ár en í kjölfar umbóta sem margir komu að, ráðuneytið, greinin, Hafró og fleiri, og greinin ekki síst til þess að ná fram ákveðum breytingum. Þrjár uppsjávartegundir hafa misst vottun um sjálfbærar veiðar þar sem strandríkin hafa ekki getað komið sér saman um skiptingu veiðanna. Þegar best hefur látið, þá hafði ISF fengið 18-19 tegundir vottaðar, og núna er það svo að 98% af öllum verðmætum útfluttra sjávarafurða koma úr sjálfbært vottuðum fiskistofnum. Þú getur varla dregið sporð af þorski úr sjó öðru vísi en að hann komið með MSC-vottorði