Síldarvinnslan í Neskaupstað hagnaðist um 7 milljarða króna eftir skatta á árinu 2012. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar . Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað var 9,6 milljarðar króna og hagnaður fyrir skatta 8,6 milljarðar króna.
Félagið greiddi 3,1 milljarð króna í tekjuskatt og veiðileyfagjald ásamt öðrum opinberum gjöldum.
Eiginfjárhlutfall er 59%. Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar tók á móti 80 þúsund tonnum af hráefni. Um frystigeymslur félagsins fóru 90 þúsund tonn af afurðum. Framleiðsla landvinnslunnar nam 106 þúsund tonnum
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2012 voru alls 24 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 14,3 milljörðum króna.
Greiddur tekjuskattur á árinu er 1600 milljónir króna en önnur opinber gjöld námu 650 milljónum. Veiðigjöld námu 850 milljónum á síðasta fisveiðiári.
Heildarfjárfestingar félagsins námu 3,1 milljarði króna. Á árinu 2012 var undirritaður samningur um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Berg-Hugin í Vestmannaeyjum. Félagið varð hluti af samstæðu Síldarvinnslunnar frá 1. janúar 2013.
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2012 voru bókfærðar á 36,9 milljarða króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 21,9 milljarðar króna.
Afli bolfiskskipa Síldarvinnslunnar var 7.570 tonn, aflaverðmæti 2.050 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa félagsins var 140 þúsund tonn, aflaverðmæti 4.660 milljónir. Heildaraflaverðmæti skipa félagsins var 6.680 milljónir króna og aflamagn 146.550 tonn á árinu.
Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 235 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2012. Framleidd voru 45 þúsund tonn af mjöli og 18 þúsund tonn af lýsi. Verðmæti mjöls og lýsis var um 12.500 milljónir króna.
Í fiskiðjuverið var landað rúmum 80 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 43.000 tonn, þar vega síldarafurðir mest. Verðmæti framleiðslunnar var 8.100 milljónir króna.
Samtals framleiðsla í landvinnslum félagsins nam 105.600 tonnum á árinu 2012 að verðmæti tæplega 21 milljarður króna.
Hjá Síldarvinnslunni starfa 230 manns til sjós og lands. Launagreiðslur félagsins voru 2.800 milljónir króna á árinu 2012 en af þeim greiða starfsmennirnir rúman milljarð í opinber gjöld.
Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. var haldinn fimmtudaginn 5. september. Í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins lagði stjórnin til að greiddur yrði 30% arður af hagnaði til hluthafa. Var það samþykkt.