Verið er að setja upp nýtt eimingartæki í fiskmjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Nýi gripurinn vegur um 30 tonn og er um 18 metrar á hæð. Eimingartækið er knúið glatvarma frá þurrkurum verksmiðjunnar. Kostnaður við tækjabúnað, uppsetningu og annað er um 150 milljónir króna.
Nýja tækið verður viðbót við eldra eimingartæki og þegar það verður komið í fullan rekstur tvöfaldast eimingargeta verksmiðjunnar. Með þessu móti er búið í haginn fyrir komandi loðnuvertíð sem stefnir í að verða sú stærsta í meira en tvo áratugi.
„Það var löngu ákveðið reyndar að setja upp nýtt eimingartæki áður en loðnukvótinn var gefinn út, segir Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri. „En með þessu móti aukum við hagkvæmni verksmiðjunnar og bætum afköstin enn frekar.“
Vatn nýtt til þrifa
Vatnið er alls staðar. Mannslíkaminn er 70% úr vatni. Uppsjávarfiskur, eins og loðna, er 80% vatn. Mjölframleiðslan fer fram með þeim hætti að fiskurinn er soðinn og pressaður og við það verður til það sem er kallað pressukaka sem er þurrefnið. Aukaafurðirnar eru soðlýsi og soð. Soðlýsið fer í skilvindu og þannig verður til lýsi. Soðið er eimað í eimingartækjum en þurrefnisinnihald þess er 25-30% af massanum. Annað er vatn. Hluti vatnsins er nýttur til þrifa á tækjum en annað rennur til sjávar. Þurrefninu úr soðinu ásamt pressukökunni er dælt inn á þurrkarann og úr verður prótínrækt mjöl, afurð sem sjaldan hefur fengist hærra verð fyrir á erlendum mörkuðum en um þessar mundir.
- Rjúfa þurfti þak fiskmjölsverksmiðjunnar til að koma nýja búnaðinum fyrir. Aðsend mynd
„Tækið er komið upp. En það á eftir að tengja það inn á kerfið og sú vinna er að hefjast. Við vorum búnir að forsmíða turn á þakið og þegar við höfðum híft tækið á sinn stað hífðum við turninn yfir það og suðum hann við þaksperrurnar,“ segir Magnús.
Ekki er þörf á að stöðva verksmiðjuna meðan á undirbúningi stendur að undanskilinni einni viku meðan nýja tækið er tengt inn á kerfið og verður verksmiðjan þá óstarfhæf þann tíma.
„Við stefnum að því að það verði gert í desember áður en mesti krafturinn færist í loðnuveiðarnar. Nú er verið að forvinna hlutina og leggja lagnir án þess að það raski starfsemi verksmiðjunnar.“
Glatvarmi nýttur þrisvar
Eimingartækið nýja er hannað og smíðað hjá vélsmiðjunni Héðni í Hafnarfirði. Ólafur Guðlaugsson, tæknifræðingur í verkfræði- og hönnunardeild fyrirtækisins, segir þessa tækni ekki nýja af nálinni þótt þótt tækninni sjálfri hafi fleygt fram í gegnum árin. Héðinn hafi sett upp fyrsta tækið þessarar gerðar strax árið 1987 á Þórshöfn.
- Rjúfa þurfti þak fiskmjölsverksmiðjunnar til að koma nýja búnaðinum fyrir. Aðsend mynd
„Við þurrkun á afurðunum í þurrkara verður til 100 gráða heitur eimur og hann er notaður sem orkugjafi fyrir glatvarmatækið, þ.e.a.s. eimingartækið. Áður en glatvarmatækið kom til sögunnar fór þessi orka sem verður til við þurrkunina út í loftið og var sýnileg öllum sem hvítur reykur sem steig upp í loftið frá verksmiðjunum. Í þá daga voru eimingartækin keyrð á gufu sem var framleidd með olíu. Það var fyrir um það bil 40 til 50 árum sem mönnum hugkvæmdist að nýta varmann frá þurrkurunum sem orkugjafa. Nú er litið á þurrkara og eimingartæki sem eitt tæki í verksmiðjunum,“ segir Ólafur.
Glatvarminn frá nýja eimingartækjaþrepinu er einnig nýttur sem orkugjafi fyrir eldra eimingartækið sem verður annað þrep í einingunni og glatvarminn frá því sem orkugjafi fyrir forsjóðara sem hefur hitun á því hráefni sem kemur inn í verksmiðjuna. Þannig er glatvarminn þrínýttur ásamt afkastaaukningu í verksmiðjunni án aukins orkukostnaðar. Með þessu móti hefur raforkan sem upphaflega var nýtt til að knýja þurrkarann verið nýtt á alls fjögur tæki.