G Run er stærsta fyrirtækið í Grundarfirði og reksturinn hefur gengið með miklum ágætum mörg undanfarin ár undir styrkri stjórn valinna kvenskörunga, með fyrirtaks starfsfólki í vinnslunni og mikilli sjálfvirknivæðingu. Ekki skemma aflabrögðin neitt fyrir. Þau hafa verið góð og kvarta menn helst undan of litlum kvótum. Í yfirreið Fiskifrétta um norðanvert Snæfellsnesið í síðustu viku var farið um vinnslusalinn í fylgd Lilju Dóru gæðastjóra og svo sest niður með Rósu framleiðslustjóra, Hólmfríði verkstjóra og Önnu Maríu fjármálastjóra.

G.Run er hátæknivætt fiskvinnslufyrirtæki sem gerir út tvo báta stóra kerfinu, þ.e. Hring SH og Runólf SH. Verið var að landa úr Hring á miðvikudegi og vinnsla hafin, mestmegnis að þessu sinni á ufsa og karfa. Allt gekk smurt fyrir sig í vinnslusalnum þar sem eru tvær aðskildar vinnslulínur sem keyrðar eru sama tíma, önnur fyrir þorsk, ýsu og ufsa, og önnur fyrir karfa. G. Run er með um 800 tonna kvóta í karfa sem er mikilvæg tegund í rekstrinum.

G. Run gerir út togskipin Runólf SH og Hring SH.
G. Run gerir út togskipin Runólf SH og Hring SH.

Tvær samhliða vinnslulínur

Sjálfvirk mötun er á fiski inn í vinnslukerfin þar sem fiskurinn er sporðskorinn hausaður og flakaður. Svo er hann bitaskorinn í tveimur vatnskurðarvélum frá Marel og þaðan fara afurðirnar í snyrtingu, gæðaeftirlit og pökkun sem ferskur fiskur og hluti er lausfrystur. Í ferska fisknum eru unnin allt upp undir tíu vörunúmer á sama tíma og jafnvel annað eins í frystu afurðunum. Sjálfvirknin er mikil en engu að síður er fjöldi starfsmanna við allar starfsstöðvar að snyrta, gæðameta og ganga frá til pökkunar og lausfrystingar. Alls vinna um 55 manns við sjálfa vinnsluna en hjá fyrirtækinu öllu, þegar starfsmenn í netagerð G. Run og áhafnir á bátunum eru taldar með, starfa um 80 manns.

Tvær vinnslulínur eru í húsinu. Hér er ufsi snyrtur eftir flökun.
Tvær vinnslulínur eru í húsinu. Hér er ufsi snyrtur eftir flökun.

Ómarktækar veðurspár

„Þetta hefur reyndar alls ekki verið dæmigerður dagur hjá okkur. Úr fyrri löndun okkar fengum við um 100 kör af ufsa sem við erum að reyna að koma í útflutning með Akranesi [flutningaskip Smyril Line í Þorlákshöfn] og það hafa skapast viss vandamál út af veðri bæði gagnvart skipaflutningunum og landflutningunum,“ segir Rósa.

Þær stallsystur hafa reyndar ýmislegt við veðurspár Veðurstofunnar að athuga því oft á tíðum sé útlitið sagt mun verra á norðanverðu Snæfellsnesi en það er í reynd. Rósa segir að svo virðist sem landinu sé einungis skipt upp í fjögur spásvæði og norðanvert Snæfellsnesið detti inn á sama spásvæði og Vestfirðirnir þótt veðurlagið sé með allt öðrum hætti. Spárnar geti stundum valdið óþarfa áhyggjum og jafnvel breytt fyrirætlunum manna og fyrirtækja.

Sem mest í sem fæstum ferðum

G. Run er að langmestu leyti í ferskfiskframleiðslu fyrir markaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Afurðirnar eru keyptar af heildsölum beggja vegna Atlantsála með milligöngu íslensku sölufyrirtækjanna. Rósa segir að fiskur sé ekki unninn í húsinu nema pantanir hafi borist í hann. Afurðirnar fara því allar landleiðina til Þorlákshafnar og að hluta til Reykjavíkur í skip Eimskips. Þess á milli fer hluti af afurðum með flugi til Bandaríkjanna. Þennan morgun stóðu þær í stappi við að koma sem mestum fiski frá sér í sem fæstum ferðum.

„Þetta var svona morgunn í boði íslenskrar veðráttu. Það verður eðlilega dálítil dramatík hjá flutningabílstjórum sem eru á stórum bílum sem taka á sig mikinn vind þegar gefnar eru út gular viðvaranir í logninu. Svo kíkjum við út um glugga núna kl. 10 og það er eiginlega bongóblíða,“ segir Hólmfríður.

Þegar allt gengur eðlilega fyrir sig er landað úr Runólfi SH á mánudögum. Aflinn er unninn á mánudegi, þriðjudegi og fyrir hádegi á miðvikudegi. Á miðvikudegi er landað úr Hring SH og aflinn unninn eftir hádegi á miðvikudegi og á fimmtudegi og föstudegi. Til þess að halda þessum hrynjanda þarf allt að ganga upp og ræðst það ekki síst af aflasamsetningu bátanna. Allt er í blússandi gangi þegar til dæmis er verið að vinna stóran ufsa en svo fer allt í hægagang ef aflinn er smáýsa. Þá hægir á vinnslunni og pöntunum líka frá kaupendum.

Ferskur fiskur 70%

Um 70% afurðanna, sem eru þorskur, ýsa, ufsi og karfi, fara fersk á markaði frá G. Run en í verðmætum talið er hlutfallið heldur lægra þegar karfi er reiknaður inn í verðmætin. Á hverjum virkum degi eru unnin á bilinu 20-30 tonn á dag í tveimur vinnslulínum en magnið ræðst af aflasamsetningunni.

Hólmfríður segir að undanfarin tvö ár til þrjú ár hafi löndunum aðkomubáta fjölgað verulega í Grundarfirði og það hafi skapað aukin verkefni fyrir netagerðina sem hafi stækkað og eflst. Ástæða þessa sé ekki síst hátt þjónustustig sem höfnin í Grundarfirði er þekkt fyrir, snurðulaus löndun og flutningar. Staðurinn liggur vel við landflutningum og á svæðinu er öflugt flutningafyrirtæki sem heitir Ragnar og Ásgeir ehf. sem sér um alla flutninga fyrir G. Run. Í hverri viku fara um 60 bretti með afurðum í skip í Þorlákshöfn og Reykjavík og lítill hluti fer í flug. Auk þess fara um 40 bretti af frosnum afurðum í viku hverri suður.

Um 70% afurðanna eru ferskur fiskur sem er vigtaður í frauðplastkassa og hlaðið á bretti.
Um 70% afurðanna eru ferskur fiskur sem er vigtaður í frauðplastkassa og hlaðið á bretti.

Norðmenn dæla þorski

Rósa segir að síðasta ár hafi verið talsverð áskorun vegna kvótaniðurskurðar í karfa síðustu þrjú ár þar á undan. Niðurskurðurinn hafi síðan verið leiðréttur af Hafró og G. Run fékk 50% aukningu í karfa á þessu kvótaári. Hólmfríður bendir á að heildarkvóti G. Run er um 3.500 tonn og það sem upp á vanti til að uppfylla samninga sé keypt á markaði. Aðrar tegundir sem berast með bátum G. Run, þar með talinn allur flatfiskur, er seldur á markaði.

„Frakklandsmarkaður hefur verið stærstur í magni en lakastur í verðum að undanförnu. Nú er sá árstími að Norðmenn dæla inn þorski á Evrópumarkað og þá berja Frakkarnir niður verðið. En þá höfum við velborgandi Ameríkumarkað til hliðar. Evrópumarkaður er samt okkar langstærst markaður með langt yfir 90% allra afurðanna,“ segir Rósa.

En væri kannski vit í því að geyma dálítið kvótann meðan Norðmenn eru hvað frekastir til fjörsins á Evrópumarkaði? Rósa segir að veiðunum sé reyndar að miklu leyti stýrt með tilliti til þessara þátta. Nú sé aðallega sótt í ýsu og ufsa þegar þorskverð hefur farið lækkandi vegna framboðsins frá Noregi.