Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til að heildaraflamark í íslensku sumargotssíldinni verði 40 þúsund tonn á vertíðinni 2011/2012, að því er kemur fram í frétt frá stofnuninni. Stofnmæling í Breiðafirði er sú lakasta frá því síldin fór að hafa þar vetursetu. Sýking í síldinni er áfram mikil eða um 37%.

Í  frétt frá Hafrannsóknastofnunni segir að í ljósi óvissu um þróun Ichthyophonus sýkingar í stofni íslensku sumargotssíldarinnar og áhrif hennar á stærð stofnsins hafi ekki reynst unnt á síðastliðnu vori að gera tillögu að aflahámarki fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Bergmálsmælingar hafi nú farið fram í Breiðafirði, megin útbreiðslusvæði stofnsins undanfarin ár, og sýkingarhlutfall metið.

,,Mælingar voru gerðar á Dröfn RE í lok október. Samkvæmt bergmálsmælingunum er lífmassavísitala hrygningarstofns 370 þús. tonn, sem er lægsta vísitala sem mælst hefur í Breiðafirði frá því að síldin hóf að hafa vetursetu á þeim slóðum. Frá árinu 2006 hefur vísitalan lækkað um ríflega helming. Bráðabirgðaniðurstöður sýna að hátt hlutfall stofnsins er enn sýkt eða um 37%. Til samanburðar var sýkingin metin 43% og 34% haustin 2009 og 2010 í öllum stofninum. Vísbendingar frá síðastliðnu hausti og fyrri parts sumars í ár þess efnis að sýkingin kynni að vera í rénum, virðast því ekki hafa gengið eftir.

Samkvæmt mati á stærð stofnsins, byggt á aldursaflalíkani samstilltu með bergmálsgögnum, er hrygningarstofninn nú um 260 þús. tonn, sem er ívið hærra en gert var ráð fyrir í stofnmati síðastliðið vor. Þess ber þó að geta að mikil óvissa er í útreikningum þar sem ekki náðist að þessu sinni að mæla allt útbreiðslusvæði síldarinnar með bergmálsaðferð. Ljóst er að óvissa í stofnmati er mikil, einkum sökum Ichthyophonus sýkingarinnar. Við þessar aðstæður telur Hafrannsóknastofnunin að áfram þurfi að fara varlega í ákvörðun aflamarks og leggur til að heildaraflamark vertíðarinnar 2011/12 verði 40 þúsund tonn. Líkur á því að það aflamark hafi teljandi áhrif á þróun stofnsins næstu árin eru ekki taldar vera miklar. Þar sem að ráðgjöfin tekur tillit til óvissu í stofnmati þá er ekki ástæða til endurskoðunar tillögunnar nema að nýjar mælingar sýni veruleg frávik frá þeim mælingum sem nú er byggt á. Rannsóknir á síldarstofninum við Suður- og Suðausturland sumarið 2011 og haustið 2010 sýndu að síldin þar var bæði minna sýkt en við Vesturland og fullorðin síld blönduð smásíld. Því er mikilvægt að grípa til aðgerða til verndunar síldar á þeim svæðum. Í ljósi þess leggur Hafrannsóknastofnunin til að síldveiðar verði einungis leyfðar við vestanvert landið á vertíðinni 2011/2012,“ segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun.