Litlar líkur þykja nú á því að veltihringrásin í Atlantshafi muni stöðvast og valda hér lítilli ísöld. Hins vegar muni hægja á henni næstu áratugina.

Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna birti fyrr í mánuðinum uppfærða skýrslu sína um breytingar á loftslagskerfinu, mikinn doðrant þar sem teknar eru saman allar nýjustu upplýsingar um stöðu vísindalegrar þekkingar á því sem er að gerast í loftslagskerfi jarðarinnar.

Fiskifréttir höfðu samband við Steingrím Jónsson hafeðlisfræðing og prófessor við Háskólann á Akureyri til að forvitnast um hvort eitthvað nýtt megi lesa út úr skýrslunni um hafið í kringum Ísland.

Hann segir að í sjálfu sér sé ekki mikið af nýjum niðurstöðum í skýrslunni, heldur sé þar fyrst og fremst betri staðfesting á því sem áður var vitað.

Þarna sé auk þess frekar horft á jörðina í heild en einstök svæði, þannig að ekki er sérstaklega skoðað hvað gæti gerst í hafinu í kringum Ísland. Almenn þróun muni vissulega snerta okkur með ýmsum hætti.

Veltihringrásin

Eitt af því sem geti skipt okkur miklu máli eru breytingar á AMOC, hinni svonefndu veltihringrás Atlantshafsins. Sá möguleiki hefur verið nefndur, og jafnvel talinn líklegur, að hún muni hreinlega stöðvast innan ekki svo langs tíma. Afleiðingarnar yrðu þær að hér myndi kólna mjög mikið. Ekki séu lengur taldar miklar líkur á svo afdrifaríkum breytingum.

„Nú er talað um að það sé mjög líklegt að það komi til með að hægja á þessari hringrás sem þýðir væntanlega að allavega hlýnunin verður minni hér heldur en kannski annars staðar. Sú kólnun sem verður þá muni ekki vega upp hnattræna hlýnun.“

Þekkingin á þessu sé þó ekki talin mjög örugg.

„Þetta er ekki mjög áreiðanlegt mat, þetta er bara það besta sem við höfum.“

Súrnun

Meira er vitað um súrnun sjávar, mælingar hafa verið gerðar áratugum saman, þar á meðal hér við land, og þær eru mjög áreiðanlegar.

„Súrnun sjávar er náttúrlega mjög stórt atriði hér af því við erum með mjög kaldan sjó. Sjórinn súrnar meira hér en þar sem er hlýrra,“ segir Steingrímur og útskýringin er sú að kaldur sjór tekur frekar til sín koldíoxíð úr andrúmsloftinu.

„Það fer meira ofan í sjóinn þar sem hann er kaldur heldur en þar sem hann er heitur. Þetta vitum við vel, því þetta er tiltölulega einföld mæling, einfaldari en margt annað.“

Alla vega ekki gott

Málin verða þó snúnari þegar kemur að því að meta þau áhrif sem þetta mun hafa á lífríkið í hafinu, og þar með nytjastofnana hér við land.

„Við vitum að þetta hefur slæm áhrif á kalkmyndandi lífverur, þannig að þetta mun hafa slæm áhrif á lífkerfið. Á sumum stöðum hefur verið sýnt fram á að þetta er farið að hafa áhrif á lífverur í sjónum, en það er nú kannski ekki neitt stórkostlegt ennþá. Svo er spurning hvernig afleiðingarnar berast upp fæðukeðjuna. Þetta er eitthvað sem við vitum ekki nóg um, en þetta er alla vega ekki góð þróun.“