Þótt strandveiðimenn og -konur geti brosað út að eyrum eftir mokveiði sumarsins segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaveiðimanna (LS), engu að síður grátlegt að hundruð báta þurfi að liggja bundnir við bryggju í næstu viku.

Fiskistofa sendi á þriðjudag frá sér tilkynningu um að strandveiðar verði að öllu óbreyttu bannaðar frá og með fimmtudeginum 19. ágúst. Ástæðan er sú að veiðiheimildir sumarsins væru að klárast, þrátt fyrir að enn séu nokkrir dagar eftir af tímabilinu. Að sögn Arnar voru aðeins 272 tonn af þorski óveidd í gær, miðvikudag, en meðalaflinn í ágúst hefur verið um 300 tonn á dag og þar af þorskur 268 tonn.

Tekið af byggðakvóta

LS hefur sótt það stíft að fá auknar heimildir til að tryggja öllum möguleika á 48 dögum, eins og ráð er fyrir gert í lögum. Upphaflega var 11.100 tonnum úthlutað til strandveiða sumarsins, en í júlí bætti ráðherra 1.171 tonni við þar sem þá þegar stefndi í að veiðarnar næðu hámarkinu löngu fyrir ágústlok.

Nú í vikunni sendi LS bréf til ráðherra með ósk um 800 tonn í viðbót. Þau tonn yrðu tekin úr byggðakvóta sem ekki yrði nýttur hvort eð er og mætti ekki færa á milli ára.

„Þetta er bara spurning um hvort eigi að nýta allan leyfilegan afla eða ekki. Strandveiðarnar eru eini flokkurinn í stjórnkerfi fiskveiða sem gæti verið nýttur til þess,“ segir Örn. „Í þessu tilviki kemur í ljós að það er fjöldinn allur af bátum sem sóttu um almennan byggðakvóta en virðast ekki hafa áhuga á að fá hann þar sem þeir hafa ekki lagt fram til vinnslu í heimabyggð neinn afla.“

Ráðuneytið varð þó ekki við þessu. Fiskistofa greindi í gær frá því að veiðunum væri lokið, 18. ágúst hafi verið síðasti dagur tímabilsins þetta árið.

Besta innspýtingin

„Almennt er sátt meðal þeirra sem stunda strandveiðar að hafa þetta kerfi 48 daga og tólf dagar í hverjum mánuði. Það verði fest í lög og ávallt eyrnamerktur nægilegur afli til að svo verði,“ segir Örn, spurður um hvernig fyrirkomulag ætti að hafa á strandveiðum til að tryggja að ekki þurfi að stöðva veiðarnar áður en veiðitímabili sumarsins lýkur.

„Síðan verður að koma í ljós hver aflinn verður á hverju ári og taka tillit til þess þegar þessum 5,3 prósentum er úthlutað að þá mundi í sumum tilvikum koma minna í byggðakvóta hjá stærri skipum sem eru að fá byggðakvóta í dag.“

Strandveiðarnar séu „besta innspýtingin sem hefur komið inn í stjórn fiskveiða. Það er búið að vera núna frá 2009 og búið að festa sig vel í sessi, það hefur verið að þróast undanfarin ár og gengið bara vel.“

Annars segir Örn almennt vera mjög gott hljóð í strandveiðimönnum og -konum eftir sumarið.

„Það hefur fiskast vel og yfirleitt gott veður, þótt það séu undantekningar. Gott verð á fiskinum og nokkru hærra heldur en á síðasta ári, þannig að ég á nú alveg von á því að menn brosi út að eyrum.“