Hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað hefur verið ákveðið að Beitir NK haldi vestur fyrir land og hefji veiðar á íslenskri sumargotssíld og hætti kolmunnaveiðum. Bjarni Ólafsson AK liggur í höfn í Neskaupstað og mun ekki heldur halda áfram kolmunnaveiðum að sinni.
Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar en Bjarni Ólafsson hefur að undanförnu lagt stund á kolmunnaveiðar austur af landinu. Afli hefur verið heldur tregur og farið minnkandi. Alls hefur Bjarni Ólafsson landað þrisvar í Neskaupstað samtals 2.400 tonnum. Hann landaði síðast um 700 tonnum á miðvikudag.
Beitir hélt einnig til kolmunnaveiða og landaði 330 tonnum aðfaranótt sunnudags. Sturla Þórðarson skipstjóri segir í viðtali í frétt Síldarvinnslunnar að aflinn hafi verið afar rýr.
„Við vorum fimm daga að veiðum 60-70 mílur austur af landinu og það var einungis dregið á daginn. Þetta var vinna frá 7 til 5 og síðan látið reka yfir nóttina. Kolmunninn hverfur alveg þegar dimma tekur,“ segir Sturla.