Fyrir færeyska Lögþinginu liggur frumvarp um breytta fiskveiðistjórnun og er stefnt að afgreiðslu frumvarpsins nú fyrir helgina.

Meðal þess sem breyta á er að uppboð á kvóta verður aflagt í Færeyjum. Jafnframt er hugmyndin að heimila viðskipti með kvóta, en þau viðskipti verði skattlögð.

Útfærslan á þessum reglum er ekki endanlega mótuð, en reiknað með að þeirri vinnu ljúki á fyrstu mánuðum komandi árs.

Frumvarpið gæti auk þess tekið breytingum á lokametrunum, en þessar hugmyndir eru í samræmi við stefnu samsteypustjórnar Sambandsflokksins, Fólkaflokksins og Miðflokksins sem tók við völdum í september síðastliðinum.

Erlent eignarhald í sjávarútvegi verður takmarkað við 25 prósent, að undanskildum núverandi eignatengslum sem ekki verður hróflað við. Sem kunnugt er á Samherji færeyska útgerðarfélagið Framherja.

Í tengslum við þessar breytingar stefnir Lögþingið að því að afturkalla uppsögn Hoyvíkursamningsins, fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja, eins og Fiskifréttir greindu frá í morgun.

Gerð verður krafa um að öllum fiski verði landað í Færeyjum, en undanþágur veittar í þeim tilvikum sem aflinn er veiddur fjarri færeyskum miðum eða þegar innlend vinnsla ræður ekki við móttöku aflans.