Verð á ýsu í Noregi er annaðhvort jafhátt og verð á þorski eða hærra, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.

Þar segir að verð á 800 gramma línuýsu sé nú 20 krónur norskar á kílóið (um 408 ISK) en verð á sambærilegum þorski sé um 15 krónur á kílóið (306 ISK). Hér er um slægðan fisk og hausaðan að ræða. Togaraflotinn fái um það bil 15 krónur á kílóið fyrir hvora tegund, heldur meira þó fyrir ýsuna.

Ýsuverð er hátt en er þó ekki í sögulegri hæð. Hins vegar hefur ýsuverði í Noregi aldrei fyrr verið svona hátt í samanburði við þorskverð.