Ísfisktogarinn Gullver NS kom nýlega til heimahafnar á Seyðisfirði eftir að hafa verið í slipp á Akureyri um tíma. Rætt er við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

„Við reiknum með að fara út seinni partinn. Það þarf að ná í fisk fyrir vinnsluna og því verður þetta afar stuttur túr. Áformað er að við komum inn á mánudagsmorgun. Við förum líklega út á Gletting. Það má gera ráð fyrir að þar liggi fiskurinn í síldinni,“ segir Hjálmar Ólafur.

Rýmingu var aflétt á Seyðisfirði í gær en vegna brælunnar að undanförnu fæst ekki fiskur til vinnslu í frystihúsinu fyrr en Gullver landar á mánudag.