Guðbjörg GK 9, nýr 13 metra langur og 5,5 metra breiður stál- og álbátur sem Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur látið smíða í Tyrklandi fyrir útgerðarfélagið Stakkavík í Grindavík, hefur staðist allar prófanir og skoðanir og er tilbúin til afhendingar.

Afhending tafist

Afhending bátsins hefur tafist og tefst áfram, ekki síst vegna atburðanna í og við Grindavík en sem kunnugt er hefur Stakkavík, kaupandi bátsins, orðið fyrir miklum skakkaföllum. Fiskvinnsluhúsnæði fyrirtækisins hefur verið metið ónýtt og ólíklegt að unninn verði fiskur þar á ný. Fyrirtækið sagði upp um 47 manns sem störfuðu við fiskvinnslu fyrirtækisins í byrjun febrúar. Stakkavík gerir nú út fjóra báta í aflamarkskerfinu, Óla á Stað GK, Geirfugl GK, Hópsnes GK og Gulltopp GK.

Hugsanleg raðsmíði

Skrokkur nýrrar Guðbjargar GK var smíðaður úr stáli og áli í Tyrklandi og stærstu tæki sett í hann þar. Endanlega var gengið frá smíðinni hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Báturinn er hannaður af Ráðgarði Skiparáðgjöf. Áætlun Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur er að bjóða upp á raðsmíði á bátum þessarar gerðar fyrir útgerðarfélög í krókaaflamarkskerfinu. Guðbjörg GK er því nokkurs konar frumgerð. Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíða[1]stöðvarinnar, sagði Fiskifréttum á síðasta ári að fleiri útgerðir hefðu sýnt áhuga. Skipasmíðastöð Njarðvíkur sinnti öllu eftirliti með smíðinni í Tyrklandi og stýrði kaupum á öllum aðföngum og búnaði.

Innlendir birgjar að stærstum hluta

Mestur hluti búnaðar í Guðbjörgu GK var keyptur á Íslandi af fyrirtækjum eins og Sónar, MD-vélum, Aflhlutum, HT, Vatni & veitum, Marás, Kælingu, Landvélum, Stýrisvélaþjónustunni, Öryggismiðstöðinni og Micro. Þetta er búnaður sem kostar á annað hundrað milljónir króna.

„Þetta var til þess gert að þeir sem eiga eftir að selja varahluti viti nákvæmlega hvað er í skipinu. Líka tryggir þetta alla þjónustu og að þessi búnaður fáist á Íslandi. Þetta er ekki ódýrasta lausnin en mikils virði að það sé vandræðalaust að fá hluti í skipið þegar á þarf að halda.“

„Stærðarmörkun eru 30 brúttótonn sem gefur okkur kassaformið. Við viljum hafa íbúður fyrir fjóra og átta kojur því það eru tvær áhafnir á bátnum og hver hefur sína koju." FF MYND/EVA BJÖRK
„Stærðarmörkun eru 30 brúttótonn sem gefur okkur kassaformið. Við viljum hafa íbúður fyrir fjóra og átta kojur því það eru tvær áhafnir á bátnum og hver hefur sína koju." FF MYND/EVA BJÖRK

Fegurðin er fólgin í notagildinu

Ráðgarður Skiparáðgjöf teiknaði og hannaði Guðbjörgu GK 9 og hefur hannað fjölda annarra báta sem þurfa að passa inn í 30 brúttótonna regluverkið, og nýjustu bátarnir eru Hulda GK, Háey ÞH og Indriði Kristins BA, sem hafa sannað gildi sitt sem góðir fiskibátar.

Daníel Friðriksson skipatæknifræðingur. FF MYND/GUGU
Daníel Friðriksson skipatæknifræðingur. FF MYND/GUGU

Daníel Friðriksson, skipatæknifræðingur hjá Ráðgarði Skiparáðgjöf, sagði Guðbjörgu GK vissulega svipa til Háeyjar í útliti en Guðbjörg GK hafi þó meira særými og hún er tekin upp að aftan svo hún sleppi betur sjó, dragi minna á eftir sér og verði léttari til gangs, ekki ósvipað og Ráðgarður Skiparáðgjöf gerði í tengslum við hönnun Huldu GK og Indriða Kristins BA.

Teiknað inn í reglur

Daníel sagði að þegar verk[1]efnið snúist um að teikna bát inn í ákveðnar reglur verði útlitið með þessum hætti. Hann hafi vissulega orðið var við gagnrýnisraddir en hefur skýringu á þeim. Þegar fyrstu skuttogararnir komu til landsins hafi bátasjómennirnir verið gráti nær þyrftu þeir að fara yfir á svona ljót skip.

„En það verður ekki bæði haldið og sleppt. Ástæðan fyrir útlitinu er sú að við byrjum á því að teikna lest utan um körin. Stærðarmörkin eru 30 brúttótonn sem gefur okkur kassaformið. Við viljum hafa íbúðir fyrir fjóra menn og átta kojur því það eru tvær áhafnir á bátnum og hver hefur sína koju. Við viljum að þeir hafi gott afdrep til að matast og svo viljum við að í lestinni sé standandi hæð svo menn þurfi ekki að bogra við vinnu sína sem er mjög slítandi. Þá er báturinn orðinn þetta hár og við viljum hafa brúna eins stóra og stætt er á svo þar sé góð aðstaða. Út frá þessu getur útlit bátsins ekki orðið mikið annað,“ sagði Daníel þegar rætt var við hann í Fiskifréttum þegar Guðbjörg GK kom til landsins frá Tyrklandi á síðasta ári.

Hábyggðir en góður stöðugleiki

„Ég held að mörgum þyki núna Sandfellið og Hafrafellið, sem við hönnuðum líka, fallegir bátar. Þeir eru að vísu aðeins lægri en þeir veiða vel. Þetta er alveg eins og með skuttogarana; þeir fóru að þykja fallegir þegar þeir fóru að veiða. Fegurðin er því að miklu leyti fólgin í notagildinu. Margrét og Háey taka óneitanlega á sig mikinn vind en þeir hafa góðan stöðugleika ef miðað er við eins þilfars bátana sem áður voru algengir,“ segir Daníel.

Daníel segir að ekki hafi komið nægilega skýrt fram að Margrét GK er ekki að öllu leyti stálbátur því allt fyrir ofan milliþilfarið er úr áli sem er meira en helmingurinn af rúmmáli bátsins. Þetta geri það að verkum að þyngdarpunkturinn er lægri í honum en ef hann væri allur úr stáli. Þyngdardreifingin sé jafnvel betri en ef um plastbát væri að ræða. Margrét GK er einungis eilítið þyngri en ef hann væri gerður úr plasti því plastbátar hannaðir af Ráðgarði Skiparáðgjöf eru þykkari en áður var.