Eftirlitsmenn Fiskistofu hafa fylgst með grásleppuveiðum frá því vertíðin hófst og róið með bátum víðsvegar á landinu.
Í frétt á vef Fiskistofu segir að nokkuð hafi verið um að hlutfall meðafla væri hærra í þeim veiðiferðum þar sem eftirlitsmaður var með í för en í veiðiferðum án eftirlitsmanns. Hjá nokkrum bátum gætti mikils misræmis þar sem óverulegum eða jafnvel engum meðafla var landað úr fjölda veiðiferða áður en eftirlitsmaður fór með í róður. Meðafli reyndist nema hundruðum kílóa þegar eftirlitsmaður var um borð. Einkum munaði þar miklu um þorsk.
Hjá einum bát var engum meðafla landað í alls fjórtán veiðiferðum sem farnar voru án eftirlitsmanns en tæpu einu og hálfu tonni af meðafla landað, mest þorski, úr þremur veiðiferðum sem eftirlitsmaður var með í för.
Fiskistofa minnir skipstjóra á að koma með allan afla að landi og ítrekar að alvarleg viðurlög og refsingar eru við brottkasti.