„Nýsköpun í bláa hagkerfinu hefur tekið miklum breytingum á þeim þrettán árum sem Íslenski sjávarklasinn hefur verið starfandi,” segir Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans. Þór gefur gott yfirlit yfir það sem gerst hefur í nýsköpun hér á landi síðustu árin.

Þegar klasinn var stofnaður voru tæknifyrirtæki sem voru að þróa nýjar lausnir fyrir fiskvinnslu mest áberandi. Á þeim tíma töldum við á fjórða tug minni tæknifyrirtækja sem voru með fjölbreyttan innlendan tæknibúnað fyrir veiðar og vinnslu. Áskorun margra þessara fyrirtækja var útrásin með þeirra tækni en vegna smæðar sumra þeirra reyndist það þungt. Eftir því sem þau hafa stækkað og sameinast hefur samkeppnisstaðan batnað.“

Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans.
Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans.
© BIG (VB MYND/BIG)

Um leið segir Þór að mörg þessara fyrirtækja hafa fært út kvíarnar og þjóna núna ekki einungis sjávarútvegi heldur ekki síður öðrum matvælagreinum eins og kjúklinga- og svínaræktendum. Þar fór Marel fremst en síðan hafa fjölmörg önnur tæknifyrirtæki fylgt í kjölfarið eins og Skaginn3X og Thorice. Þór segir að sá grunnur sem lagður var með nánu samstarfi sjávarútvegsfyrirtækja og tæknifyrirtækja sé sumpart grunnur að þeirri samstarfsmenningu sem þrífist núna á mun fleiri sviðum bláa hagkerfisins.

„Gríðarleg aukning hefur átt sér stað í fjölda nýsköpunarfyrirtækja í okkar geira á síðastliðnum áratug og fjölbreytnin orðið miklu meiri.“

Í tengslaneti Íslenska sjávarklasans eru nú vel á annað hundrað nýsköpunarfyrirtækja.

„Fertram“-áhrifin

„Það má segja að næsta bylting í nýsköpunargeiranum hafi verið fjölgun fyrirtækja í fullnýtingu hliðarafurða. Eftir að Lýsi, niðursuðufyrirtæki, hausaþurrkun og einstaka fyrirtæki í þróun á heilsuefnum úr skel og innyflum ruddu brautina, hafa síðustu ár skotist upp á yfirborðið fjöldi áhugaverðra nýsköpunarfyrirtækja í fullnýtingu sem eiga eftir að efla enn frekar þessa grein. Þar er bæði um að ræða þróun á prótínum eins og kollageni, lýsi, leðurvörum, snyrtivörum, heilsuvörum og lyfjum. Hér má nefna fyrirtæki á borð við Marine Collagen, Langa, Eylíf, Feel Iceland, Foodsmart, Zymetech, Norður, Næra, Feed the Viking, Dropi, Unbroken, Bifrost Foods, Lipid, Primex og Genis. Þá hafa fyrirtæki eins og Héðinn/HPP og tæknifyrirtækin í fullvinnslu komið fram með margvíslegar tæknilausnir sem hjálpa munu öðrum þjóðum að nýta hliðarafurðir betur. Aldrei hefur verið meiri áhugi á nýsköpun á þessu sviði en eftir Kerecis-söluna. Við köllum það hjá okkur „Fertram-áhrifin,“ segir Þór.

Kerecis er líftæknifyrirtæki sem fæst við þróun lækningarvara úr fiskipróteinum.
Kerecis er líftæknifyrirtæki sem fæst við þróun lækningarvara úr fiskipróteinum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þörungar og eldi

Svo má segja að fyrir 5-7 árum hafi áhugi á þróun efna úr m.a. þörungum aukist umtalsvert. Stóru sigurvegararnir þar eru fyrirtæki eins og Algalíf og Vaxa. Svo hafa komið fram mörg áhugaverð fyrirtæki sem eru að þróa vörur fyrir neytendamarkað sem tengjast þörungum. Hér má nefna fyrirtæki á borð við Taramar, Key Natura, Sjávarsmiðjuna, Mýsköpun og Zeto. Þegar síðan eldi hefst hérlendis af krafti verður til ný bylgja í nýsköpun sem hefst með því að stóru tæknifyrirtækin eins og Marel, Valka og Hampiðjan þróuðu búnað sinn fyrir laxeldi. Benchmark Genetics og Vaki fiskeldiskerfi eru tæknifyrirtæki sem Þór bendir á að séu á heimsmælikvarða og geti verið fyrirmynd að fleiri nýsköpunarfyrirtækjum á ólíkum sviðum hérlendis sem tengjast eldi. Að sögn Þórs hafa landeldisfyrirtæki á borð við Geosalmo, Landeldi Samherja og Matorka sýnt mikinn áhuga á fullnýtingu og samstarfi í tækni við innlend nýsköpunarfyrirtæki. Þetta hefur haft þau áhrif að mörg nýsköpunarfyrirtæki eru að koma fram á þessu sviði.

„Þá er von okkar hjá Sjávarklasanum að sá þekkingargrunnur sem lagður hefur verið hérlendis í fullvinnslu hvítfisks verði nýttur til að fullvinna laxinn. Í þeim efnum verðum við að gera betur en frændur okkar í Noregi.”

Gervigreind

Á síðustu tveim árum hafa starfsmenn Sjávarklasans séð hratt vaxandi áhuga fyrir nýtingu gervigreindar í tengslum við bláa hagkerfið.

„Gervigreind er að okkar mati sú tækni sem getur leitt til mestu framleiðniaukningar í íslenskum sjávarútvegi á komandi árum,“ segir Þór.

Hann segir að það muni taka lengri tíma fyrir alþjóðlegan sjávarútveg að tileinka sér gervigreind í samanburði við aðrar atvinnugreinar erlendis. Alþjóðlegur sjávarútvegur sé yfirleitt svifaseinni en aðrar atvinnugreinar í tækniþróun.

„Hér gegnir þó öðru máli. Íslenskur sjávarútvegur hefur verið í forystu á mörgum sviðum tækni og getur hér náð forystu í notkun gervigreindar á heimsvísu.”

Gervigreind er sú tækni sem getur leitt til mestu framleiðniaukningar í íslenskum sjávarútvegi, að mati Íslenska sjávarklasans. Myndin er gerð með gervigreind og sýnir stofnfrumuræktun kjöts.
Gervigreind er sú tækni sem getur leitt til mestu framleiðniaukningar í íslenskum sjávarútvegi, að mati Íslenska sjávarklasans. Myndin er gerð með gervigreind og sýnir stofnfrumuræktun kjöts.

Þór segir að nýsköpunarfyrirtækjum á þessu svið fjölgi hratt og mörg þeirra séu eða muni fljótlega fara að nýta sér gervigreind.

„Hér má nefna fyrirtæki á borð við Hefring Marine, Ankeri, Visk, Oceans of Data, Optitog og Learn Cove svo einhver séu nefnd.“

Svo eru fyrirtækin sem Þór nefnir sem eru utan þess ramma sem hér hefur verið fjallað um en sýna vel breiddina í nýsköpun hérlendis. „Nokkur mögnuð tæknifyrirtæki sem spennandi verður að fylgjast með á næstunni eru m.a. Alvar, Wise Fish, Rafnar, Kapp, Sidewind, Alda Öryggi, Trackwell, og SeaSaver.“

Eitt af því sem hefur líka breyst á mjög skömmum tíma er að sjávarútvegsfyrirtæki hafa fjárfest í nýsköpunarfyrirtækjum í meira mæli en nokkru sinni fyrr. „Ég veit um engin önnur dæmi slíks vaxtar í heiminum. Þetta getur verið einn af leikbreytum fyrir nýsköpun og sjávarútveg á komandi árum og þyrfti reyndar að gerast á fleiri sviðum íslensks atvinnulífs, þ.e. að stór og öflug tæknifyrirtæki fjárfesti meira í sprotum.“