Hluti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er ósjálfbær. Fyrir dyrum eru breytingar á eignarhaldi þeirra, að óbreyttu. Að stjórna fiskveiðum með kvótakerfi reyndist mesta björgunaraðgerð okkar tíma í íslensku samfélagi og stenst samanburð við björgunina út úr bankahruninu.
„Eins og oft í sögu okkar þá erum við sjálfum okkur verst. Við kölluðum yfir okkur mesta efnahagsslys síðustu aldar sem tók þrjátíu ár að leiðrétta. Við fjárfestum í allt of stórum flota skuttogara og dreifðum honum um landið. Við ofmátum fiskimiðin og vanmátum veiðigetu hinna nýju skipa. Eigendurnir voru einstaklingar og sveitarfélög sem fjármögnuðu kaupin með 110% láni frá ríkisbönkum og ríkisábyrgðum. Við ríkisvæddum í raun þennan hluta sjávarútvegsins í gegnum bæjarútgerðir og ríkiskassann,“ sagði Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, í erindi sínu á opnunarmálstofu Sjávarútvegsráðstefnunnar, sem var haldin í síðustu viku. Pétur dró upp mynd af því hvernig eignarhald sjávarútvegsfyrirtækja hefur breyst á Íslandi í gegnum áratugina og setti fram sína skoðun á stöðu mála og hvernig þróun næstu ára gæti litið út.
Sagan segir
Það er fernt sem ræður því – alltaf og alls staðar – hvernig eignarhald á fyrirtækjum er, benti Pétur á. Almenn þjóðskipan, efnahagsástand, fyrirgreiðsla, pólitísk eða fagleg, og lagaramminn í landinu. Þetta má sjá í sögu sjávarútvegs á Íslandi sem fyrstu áratugi 20. aldar einkenndist á framtaki frumkvöðla – einstaklinga eins og Thors Jensen hjá Alliance, Óskars Halldórssonar, síldarspekúlants og útgerðarmannsins Tryggva Ófeigssonar. Af þessum mönnum og annarra tók við tími bæjarútgerðanna á krepputímanum, sem var stofnað til vegna atvinnuástandsins sem þá skapaðist. Rekstur þeirra grundvallaðist á allt öðrum viðmiðum en þeirra sem byggðu upp eigin rekstur. Þá kom tími nýsköpunartogarana sem tengdust bæjarútgerðunum og Svíþjóðarbátanna á árunum fyrir 1950.
„Eftir 1960 áttum við reynda sjómenn sem voru um borð í bátunum og þeir vildu kaupa sína eigin báta til að nýta auðlindina. Þeir fóru í grónar fiskverkanir, fengu þar lán með því fororði að landa afla sínum þar í tiltekinn tíma. Að þeim tíma liðnum stofnuðu þeir sína eigin fiskverkun og það er upphafið að því sem ég tel að hafi reynst okkur afar vel – eða tenging veiða og vinnslu. Sjómenn fóru í land og verkuðu sinn eigin fisk,“ sagði Pétur sem rakti að með tímanum skapaðist togstreita á milli ríkisins og bæjarútgerðanna. Þá kom sá tími að það var ekki pláss fyrir alla á miðunum og við tóku tími þorskastríðanna – baráttunnar um efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar í raun.
„Þarna var lagður grunnurinn að þeim öfluga sjávarútvegi og efnahag sem við þekkjum í dag,“ sagði Pétur en lýsti í samhengi því efnahagslega slysi sem áður var nefnt hér að framan.
Á pari við hrunið
Pétur sagði raunhæft að líkja því sem þá gerðist við efnahagshrunið árið 2008. Á þessum stutta tíma í sögu sjávarútvegsins 1970 – 1990 voru stór og smá sjávarþorp byggð upp með ósjálfbærri aðgerð stjórnvalda sem, gekk svo til baka fyrir lok aldarinnar. Í hönd fór tími offjárfestingar og ofveiði.
„Grátkórum útgerðar var svarað með sjóðasukki frá fyrirgreiðslupólitík. Taprekstri á ofveidda fiskistofna var haldið við með gengisfellingum í 50 til 100% verðbólgu. Þarna spila stærstu rulluna, efnahagsástandið sjálft og fyrst og síðast hinar pólitísku fyrirgreiðslur. Lög og reglur um heildarveiði voru óþekktar.“
Pétur sagði að það sem við tók var óumflýjanlegt – að stjórna veiðunum með kvótakerfi.
„Það reyndist mesta björgunaraðgerð okkar tíma og stenst samanburð við björgunina úr bankahruninu. Það tókst að byggja upp sterka stofna og fyrirtæki úr gjaldþrota grein og ofveiddum fiskistofnum. Það sem þurfti til var vægðarlaus niðurskurður veiða, stórkostleg fækkun skipa og sársaukafullar aðlögunaraðgerðir í landi. Með öðrum orðum – greinin hagræddi sig sjálf til lífs. Þegar þjóðarsáttarsamningarnir bættust við fóru hlutirnir að þróast í rétta átt í efnahag Íslands,“ sagði Pétur.
10.000 hluthafar
En hvaða áhrif hafði kvótakerfið á eignahald í sjávarútvegi og á rekstur fyrirtækjanna? Pétur sagði að í stórum dráttum hafi þróunin orðið sú að einkafyrirtæki keyptu reksturinn af almenningsfélögum, sjóðum, kaupfélögum og bæjarútgerðum. Um aldamótin voru mörg fyrirtæki komin á markað og hluthafar tíu þúsund í 10 stærstu fyrirtækjunum.
„Í aðdraganda hrunsins seldu fjárfestar sig út úr sjávarútveginum og keyptu í bönkunum og fyrirtækin sjálf keyptu þá út með ódýru lásfé - frá þessum sömu bönkum. Þetta var íslensk snilld. Þarna réð för, efnahagsástand fyrirhrunsáranna, bankafyrirgreiðslan og nýsett lög um stjórnun fiskveiða,“ sagði Pétur.
Þrískiptingin
Pétur greindi útgerðarfyrirtækin í þrennt. Blönduð uppsjávar- og bolfiskfélög, félög í bolfiskveiðum og vinnslu og litlar útgerðir í bolfiskútgerð. Þessi fyrirtæki hafa stjórnvöld umgengist með mjög misjöfnum hætti, að hans sögn.
„Uppsjávarfyrirtækin fengu án afskipta stjórnvalda að þjappa sig saman í tíu glæsileg fyrirtæki sem héldu allri sinni hlutdeild og fengu nýjar tegundir í safnið. Þau eru fyrirmynd annarra fyrirtækja í sjávarútvegi. Fyrirtæki í bolfiski og vinnslu bjuggu við það að skorið var vægðarlaust niður og 25% af hlutdeildinni tekin og færð á nýjar eigendur. Litlu útgerðirnar, sem voru búnar til með stjórnvaldsaðgerðum, fjölgaði. Samandregnar rekstrarniðurstöður sýna að félög í bolfiskveiðum og -vinnslu, millifyrirtækin, sitja eftir í ósjálfbærum rekstri,“ sagði Pétur og bætti því við að það þýddi bara eitt.
„Stórar útgerðir sem eru með blandaðan rekstur hafa notað sinn tíma mjög vel. Þau hafa fjárfest og eru tilbúin til að mæta þeim erfiðleikum sem er að birtast þeim út við sjóndeildarhringinn. Meðal þeirra meðalstóru, sem telja um 50 útgerðir með 700 tonn og meira, eru um 25 sem eru með vinnslur í landi. Þetta eru okkar ósjálfbæru einingar í dag. Við eigum, flest fyrirtækin, alla endurnýjun eftir. Í hópi smærri útgerða eru 400 skip með 700 tonn og minna. Þau verða í skattaskjóli og geta sameinast og þjappað sér mjög vel saman og án þess að skattmann éti þá. Eigendur meðalstóru ósjálfbæru fyrirtækjanna eiga þrjá kosti. Þau munu ýmist færa sig í gjaldaskjólið, sameinast stóru fyrirtækjunum - eða selja og hætta. Ósjálfbærnin mun reka þá til þess,“ sagði Pétur.
Lýst eftir umræðu
Niðurstaða Pétur var sú að einkarekstur hafði betur þegar til sögunnar er litið og sjávarútvegurinn hvílir í höndum þess hóps í dag. Núverandi skattastefna stjórnvalda mun hins vegar breyta mynstri eignarhaldsins með sama hætti og þegar aflahlutdeildir voru teknar af vissum aðilum í greininni.
„Ég lýsi hér með eftir umræðu um hvernig eignarhald og fyrirtækjaflóru menn vilja hafa næstu ár. Þegar það liggur fyrir skulum við setjast niður og setja lög og reglur í samræmi við það, til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. Sagan sýnir okkur nefnilega að greinin bregst alltaf við breyttum aðstæðum,“ sagði Pétur.