Plastumbúðir undan dönskum rabarbaragraut fékkst í veiðarfæri Gullvers NS á Færeyjahrygg fyrir skemmstu. Merkingar á umbúðunum sýna að hann hefur líkast til verið á þvælingi í hafinu í á þriðja áratug því síðasti neysludagur er janúar 2001. Þrátt fyrir langan tíma í sjónum sést lítið á umbúðunum.
Hafrannsóknastofnun heldur utan um allt plast sem kemur í veiðarfæri hér við land. Plastið er skráð og vigtað og sumt myndar stofnunin eins og téðan rarbarbaragrautarpoka. Líkast til hefur pokinn borist í hafið frá dönsku eða færeysku skipa því grauturinn er framleiddur af Tørsleff & Co. Í Glostrup í Danmörku.
Safna í gagnagrunn
Georg Haney, umhverfisfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, heldur utan um skráningu á plasti sem kemur upp með veiðarfærum við landið. Hann misjafnt hve mikið komi upp af plasti með veiðarfæri. Stundum séu það eitt til tvö ítem í hali og stundum ekki neitt. Skráningarferlið er nýlega hafið og segir Georg að til standi að safna upp gagnagrunni sem verði lesið í seinna. Það rusl sem algengast er að komi upp með veiðarfærum séu slitur úr öðrum veiðarfærum, bandspottar, flotkúlur og línubútar. Hann segir erfitt að leggja mat á hve mikið magn af rusli er í sjónum í kringum Ísland. Skráning á því sem kemur upp hefur nú staðið yfir í tvö ár en huganlega verði hægt að lesa hver þróunin er út frá gögnum sem hafa safnast saman yfir lengra tímabil. Hann segir að einnig sé að vissu marki hægt að lesa í þjóðfélagsástandið í gegnum það sem berist upp með veiðarfærum. Undanfarið hafi til að mynda mikið borið á blautklútum og andlitsgrímum sem tengist beint sóttvarnaráðstöfunum landsmanna út af heimsfaraldrinum.