Fara þarf mörg ár aftur til að finna fleiri báta sem stundað hafa grásleppuveiðar og á yfirstandandi vertíð, að því er segir á vef Landssambands smábátaeigenda (LS) . Eftir metvertíðina í fyrra var búist við góðri þátttöku nú. Það hefur gengið eftir og vel það, útgefin leyfi eru komin í 357 sem eru tólf fleiri en á síðustu vertíð.
Í samtölum LS við sjómenn hefur eitthvað lifnað yfir veiðinni nú á síðustu dögum eftir afar dapurt gengi á síðustu vikum. Heildarveiðin nú svarar til 9.500 tunna af söltuðum hrognum, sem er rúmum 40% minna en á sama tíma í fyrra. Raun minnkun er hins vegar 31%, 0,59 tunnur á hvern nýttan dag í ár á móti 0,86 tunnum á vertíðinni 2010.
Rétt er að geta þess að leyfilegir veiðidagar hvers báts eru 20% færri í ár en í fyrra.