Síðastliðinn föstudag komu saman á alþjóðlegum fundi hér í Reykjavík hagsmunaaðilar grásleppuveiða og kavíarframleiðenda.
„Þarna voru bæði grásleppukarlar og kaupendur, dreifingaraðilar og erlendir framleiðendur, frá öllum stigum greinarinnar,“ segir Axel.
Landssamband smábátaeigenda (LS) hafði á sínum tíma frumkvæði að því að halda slíka fundi og hafa þeir nú verið árviss viðburður í þrjátíu ár.
Tímabundin afturköllun MSC-vottunar á grásleppuveiðum hér við land var ákaft rædd á fundinum og segir Axel Helgason, formaður LS, segir að fundarmenn hafi orðið furðu lostnir þegar hann lýsti fyrir þeim á hvaða gögnum forsenda afturköllunarinnar byggir á.
„Menn voru bara í áfalli út af því á hverju þetta byggir. Þessir erlendu aðilar líta á MSC-ferlið sem heilagan hlut, ganga út frá því að þar sé vönduð vinna að baki, en raunin er alls ekki sú í þessu tilviki.“
Óbætanlegt tjón
Samþykkt var ályktun í lok fundar þar sem allir þátttakendur lýsa yfir „verulegum áhyggjum vegna þeirra áhrifa sem afturköllun vottunar hefur í för með sér. Að óbreyttu mun ákvörðunin leiða til óbætanlegs tjóns fyrir grásleppuveiðar og vinnslu á grásleppuhrognum á Íslandi.“
Í ályktuninni er einnig einróma lýst yfir stuðningi við kröfu Landsambandsins til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að ráðuneytið beiti sér fyrir endurskoðun skýrslu Hafrannsóknastofnunar um meðafla við grásleppuveiðar á árinu 2016.
Landsambandið hefur gert alvarlegar athugasemdir við þessa skýrslu og forsendur hennar. Þær athugasemdir lúta ekki síst að því að upplýsingar um meðafla, sem fengnar eru úr eftirlitsferðum á vegum Fiskistofu og byggt á í skýrslunni, séu engan veginn marktækar fyrir veiðarnar í heild.
Sérfræðingar á Hafrannsóknarstofnun hafa svarað þessari gagnrýni með því að segja að gögnin séu einfaldlega of takmörkuð til að standa undir nákvæmu mati á meðafla.
„Ef skráningar á meðafla sjófugla og sjávarspendýra í afladagbækur væru rétt skráðar af skipstjórnarmönnum sem stunda grásleppuveiðar væri ekki þörf á að meta meðafla útfrá öðrum gögnum,“ segir í aðsendri grein þeirra Guðmundar Þórðarsonar og Guðjóns Sigurðssonar hér í Fiskifréttum 18. janúar síðastliðinn.
Aukið fjármagn vantar
Í gær voru síðan fulltrúar frá Fiskistofu, Hafró og LS kallaðir á fund í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til að vinna saman að lausn.
Brynhildur Benediktsdóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu, segir ljóst að töluvert átak þurfi að gera á skráningu á meðafla við netaveiðar.
„Það þarf að skipuleggja einhverja skynsamlega vöktunaráætlun og það mun kosta eitthvað aukalega,“ segir hún. „Við getum aldrei sett eftirlitsmenn um borð í hvern einasta bát í allar veiðiferðir. Við höfum hvorki mannskap né fé í það. Hins vegar þarf að bæta við í eftirlitinu og ná skráningunum upp í afladagbókum og við verðum þá að treysta LS til að koma því til félaga sinna.“
Vinnan við að styrkja upplýsingar um meðaflann í grásleppuveiðum sé þó aðeins hluti af almennu átaki sem leggja þurfi út í til að bæta skráningu á meðafla. Þar eru það ekki síst nýjar kröfur frá Bandaríkjunum sem kalla á mun betri skráningu við fiskveiðar almennt. Undan því átaki verður ekki vikist og þar eru grásleppuveiðarnar með.
„Grásleppan er þarna bara angi af stærra máli,“ segir Brynhildur.