Grænland fær auknar heimildir til að veiða síld og kolmunna í færeyskri lögsögu, að því er fram kemur í frétt á grænlenska vefnum http://sermitsiaq.ag/ . Á móti koma auknar heimildir Færeyinga í þorski í lögsögu Grænlands
Síðastliðinn föstudag gengu Færeyjar og Grænland frá fiskiveiðisamningi milli landanna fyrir árið 2016. Hann felur í sér að Grænland getur veitt 2.500 tonn af síld við Færeyjar. Þetta er 400 tonnum meira en árið 2015. Kvóti Grænlendinga í kolmunna í færeysku lögsögunni verður 8.000 tonn. Þar með geta Grænlendingar veitt allan sinn kvóta í þessari tegund við Færeyjar.
Í staðinn fá Færeyingar að veiða meira af botnfiski við Grænland á næsta ári en í ár. Þorskkvótinn eykst úr 470 tonnum í 825 tonn. Þá mega Færeyingar veiða 475 tonn af keilu og fá rannsóknakvóta fyrir 500 tonnum af krabba.