Í tilefni af loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hefst í París næstkomandi mánudag, 30. desember, verða ísblokkir úr Grænlandsjökli, samtals 100 tonn, fluttar til Parísar. Tilgangurinn er að minna á bráðnun jökla og áhrif hennar á heimsbyggðina.

Grænlenska fyrirtækið Greenland Group Aps. stendur fyrir þessu framtaki í samvinnu við Ólaf Elíasson myndlistarmann og grænlenska prófessorinn Minik Rosing.

Frá þessu er skýrt á vef grænlenska útvarpsins . Þar segir að hugmyndin sé sú að stilla ísblokkunum upp eins og klukku, frá 1 til 12, til að sýna að hverja sekúndu og hvern dag sem líður bráðni ísinn meira og meira.

Ekki hefur verið ákveðið hvar i París ísblokkunum verður komið fyrir.