Þrátt fyrir rysjótt veðurlag eru hvalaskoðunarfyrirtæki sátt við sumarið. Aðsóknin sé orðin svipuð og fyrir covid, eða jafnvel meiri.
„Það er búið að ganga ágætlega nema að frátöldu þessum linnulausu bræludögum og norðvestanáttum,“ segir Stefán Guðmundsson hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants á Húsavík. „Maður man nú ekki eftir svona kröftugum veðrum í bransanum á þessum tíma. Við erum enn að bíða eftir sumrinu. En burtséð frá því hefur þetta gengið merkilega vel og verið mikið um hval á Skjálfanda. Ég held að það sé svipaða sögu að segja á Eyjafirðinum.“
Hann segir þó ekkert lát á ferðafólki sem vill komast með í hvalaskoðun, og það sé bara vaxandi. Mest eru það útlendingar en einhverjir Íslendingar slæðast þó með.
„Íslendingar aðeins að sýna sig á hverju ári, en uppistaðan er fólk alls staðar að úr heiminum. Við höfum auðvitað séð minna af fólki sem býr Asíumegin. Það eru bara harðari reglur þar, en vonandi skilar það sér inn á næsta og þarnæsta ári.“
Veisla í Flatey
Þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til Stefáns var hann reyndar staddur úti í Flatey að undirbúa 40 manna starfsmannaveislu þar í eyjunni í nýju húsi.
„Það var tekið í gagnið í vor eftir snarpar framkvæmdir og endurbyggingu. Við erum búin að vera hérna með útiaðstöðu og grill undanfarin 15-20 ár og svo áttum við gamla plötu og tvo og hálfan vegg þar sem var sambyggt lifrarsamlag og smiðja langafa míns. Hann var járnsmiður hérna. Við fórum í það í vor að klára það með stæl og þetta er orðinn sennilega einn huggulegasti veislusalur landsins í þessu umhverfi, með gamla tímann í fyrirrúmi.“
Ferðamálastofa heldur úti vef um hvalaskoðun á Íslandi og þar eru talin upp 43 fyrirtæki sem bjóða upp á hvalaskoðun við Ísland. Ekki eru komnar tölur um hvalaskoðun fyrir sumarið sem er að líða, en þau fyrirtæki sem rætt var við segja aðsóknina aftur komna á sömu slóðir og var fyrir covid. Jafnvel sé staðan orðin betri en þá var.
Flóinn líflegur
„Við erum bara á pari við 2019. Við erum bara mjög sátt við þetta sumar, þótt veðrið hafi ekki leikið alveg við okkur. En það þýðir ekki að kvarta,“ segir Ásta María Marínósdóttir hjá Special Tours sem siglir með ferðafólk frá Reykjavíkurhöfn út á Faxaflóa.
„Flóinn hefur verið mjög líflegur, mikið af hnúfubak og hrefnu og öllu því sem vanalega sést á Flóanum.“
Hátt í þrjátíu ár eru síðan fyrst var boðið upp á hvalaskoðun hér á landi. Fyrst var það í smáum stíl en greinin hefur vaxið og dafnað
Samkvæmt mælaborði Ferðamálastofu var fjöldi þeirra sem fóru í hvalaskoðunarferðir kominn upp í 72 þúsund árið 2003. Smám saman fjölgaði í þessum hópi og á árunum fyrir Covid voru farþegar í hvalaskoðun um það bil 360 þúsund árlega, sem þá var heldur meira en íbúafjöldinn á Íslandi.