Síldarvinnslan á Neskaupstað greinir frá því að veiði á uppsjávartegundum hafi gengið vel á síðasta ári þrátt fyrir að engin loðna hafi verið veidd. Verð á uppsjávarafurðum var auk þess hátt þannig að afkoman var með betra móti. Þá hefur aldrei verið unninn jafn mikill makríll í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og á síðasta ári.
Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar og dótturfélagsins Runólfs Hallfreðssonar ehf. eru þrjú, Börkur NK, Beitir NK og Bjarni Ólafsson AK. Beitir veiddi samtals 44.448 tonn sem skilaði 1.526 milljónum króna, Börkur veiddi 43.435 tonn fyrir 1.537 milljónir króna, og Bjarni Ólafsson veiddi 27.876 tonn fyrir 970 milljónir króna.
Ennfremur greinir Síldarvinnslan frá því að Fiskiðjuverið í Neskaupstað hafi unnið 45.532 tonn af makríl og síld á síðasta ári, Fiskimjölsverksmiðjan í Neskaupstað vann úr 97.000 tonnum af hráefni á árinu og verksmiðjan á Seyðisfirði úr 37.000 tonnum af kolmunna.