Blængur NK er að úthafskarfaveiðum á Reykjaneshrygg og hefur aflað vel. Hann hóf veiðarnar 17. maí og er kominn með um 400 tonn upp úr sjó, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Kvóti skipsins er rúm 500 tonn þannig að eftir er að fiska rúmlega 100 tonn. Skipum hefur fækkað mjög á úthafskarfamiðunum að undanförnu. Blængur er eina íslenska skipið á miðunum um þessar mundir en auk hans eru tveir spænskir togarar þar að veiðum auk rússneskra skipa.

Heimasíða SVN heyrði hljóðið í Theodór Haraldssyni skipstjóra í morgun og spurði hann frétta. „Það má segja að hér hafi verið veisla hvað veiðarnar varðar. Í upphafi túrsins vorum við að fá um 1 ½ tonn á togtíma og vorum þá að taka um 25 tonn í holi en síðan fór aflinn vaxandi. Mestur var aflinn í fyrradag en þá fengum við um 13 tonn á togtíma. Þegar svona vel veiðist þá takmarkar vinnslan veiðina og þá verður að hægja á henni. Karfinn sem fæst er afar fallegur og við erum með trollið á 400-450 faðma dýpi en þar fæst betri fiskur en þegar veitt er ofar í sjónum. Þegar við komum á miðin var kaldi en nú hefur verið logn, blíða og rennisléttur sjór í heila viku. Hann spáir hins vegar brælu annað kvöld. Við stefnum að því að klára kvótann okkar og koma heim fyrir sjómannadag með góðan afla,“ sagði Theodór.