Valka hefur formlega hafið sölu á röntgenstýrðri beinaskurðarlínu sem fyrirtækið hefur þróað og unnið að í nokkurn tíma. Með notkun hennar er hægt að auka afköst og fækka starfsfólki við snyrtingu og bitaskurð á hvítfiskflökum.
Vélin hefur verið keyrð í fiskiðjuveri HB Granda í Reykjavík í tvo mánuði og reynst vel.
,,Vélina notum við til þess að skera beingarð úr karfaflökum. Flökin eru lítil og hingað til hefur megnið af þeim verið selt með beingarði vegna þess að mjög kostnaðarsamt er að skera hann úr með hefðbundnum hætti," segir Torfi Þorsteinsson framleiðslustjóri HB Granda í samtali við Fiskifréttir.
Hann bætti því við að næsta skrefið yrði að aðlaga vélina að öðrum bolfisktegundum. ,,Ef allt gengur eftir gæti þessi tækni valdið ákveðinni byltingu í fiskvinnslu,“ sagði Torfi.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum .