Von er á Faxa RE til Vopnafjarðar um kl. 19 í kvöld með um 700 tonna síldarafla sem fékkst í einu kasti í Breiðafirðinum í gær. Þetta er önnur veiðiferð skipsins, eftir að veiðar á íslensku sumargotssíldinni voru heimilaðar, en í þeirri fyrri fengust einnig um 700 tonn en þá í tveimur köstum.

,,Við vorum að veiðum innan við Hrútey, sem er út af bænum Bjarnarhöfn, en þar enduðum við fyrri veiðiferðina. Í henni vorum við einnig að veiðum við Kiðey,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa í viðtali á heimasíðu HB Granda .
Faxi fór til síldveiða fyrir réttri viku síðan og var byrjað að vinna aflann hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði aðfararnótt sl. sunnudags. Að lokinni löndun var haldið til veiða að nýju á mánudagskvöld. Að sögn Alberts var fínasta veður inni á sundunum í Breiðafirði í gærmorgun og veiðarnar gengu vel.

,,Það er mjög erfitt að átta sig á því hve mikið er af síld á þeim slóðum sem veiðarnar hafa aðallega verið stundaðar á. Síldin getur gengið inn fyrir eyjar og hólma þar sem við komumst ekki að henni vegna grunnsævis,“ segir Albert en að hans sögn er síldin væn. Meðalvigt í prufum í yfirstandandi veiðiferð reyndist vera 326 grömm en í fyrri veiðiferðinni gáfu mælingar til kynna meðalvigt upp á um 340 grömm.