„Í þessari stefnumótun er lagt upp með það ef við við berum gæfu til þess að hafa vísindi að leiðarljósi þá geti lagareldi orðið að stoð í íslensku efnahagskerfi til framtíðar í sátt við umhverfi og samfélag,“ sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra er drög að stefnu fyrir lagareldi voru kynnt í morgun.
Um er að ræða drög að heildstæðri stefnu fyrir uppbyggngu, umgjörð
og gjaldtöku í lagareldis fram til ársins 2040. Er markmiðið sagt vera að skapa greininni skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi.
Í inngangsorðum sagði matvælaráðherra lagareldi vera atvinnugrein sem hafi vaxið á ótrúlegum hraða. Til dæmis hafi framleitt magn af laxi fimmtánfaldast á síðustu árum.
Lagareldi hafi lítið kolefnisspor
„Heimurinn kallar á meiri mat og sá matur þarf að hafa eins grunnt kolefnisspor og nokkurs er kostur ef ekki á illa að fara. Lagareldi hefur forsendur til að geta uppfyllt þær kröfur. Tækifærin í greininni eru mörg en áskoranirnar eru líka margar,“ sagði Svandís.
Rakti ráðherra að síðustu ár hafi verið mikil umræða í samfélaginu um smitsjúkdóma, um lúsafaraldra, um tengda eiturenfanotkunn og núna síðustu mánuði um strok úr kvíum.
„Þessar áskoranir verður greinin að leysa – enda er það forsenda þess að hún fái þrifist hér að hún hafi ekki skaðleg áhrif á náttúru landsins,“ undirstrikaði ráðherra.
Sjókvíeldið sérstaklega skoðað
Auk annarrar undirbúningsvinnu í tengslum við þau drög að stefnumótun sem nú hafa verið lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda nefndi ráðherra vinnu sem matvælaráðuneytið og undirstofnanir þess hefði lagt í við að kortleggja stöðu sjókvíaeldis sérstaklega enda hefði mesta uppbyggingin orðið þar. Starfshópar um smit annars vegar og strok hins vegar hefðu skila niðurstöðu fyrr á þessu ári. Framtíðarsýnin skipti mestu máli.
„Við viljum vita hvar ætlum við að vera stödd á árinu 2040. Þá viljum við að afurðirnar séu í fremstu röð, við viljum að lagareldi leggi mikið til velsældar og verðmætasköpunar í landinu. Við viljum líka að vöxturinn hafi þá byggst upp á sjálfbæran hátt þar sem vísindi og vistkerfisnálgun og varúð hafa verið höfð að leiðarljósi,“ sagði Svandís og bætti við að gjaldtaka af greininni þyrfti að endurspegla að um nýtingu takmarkaðrar auðlindar sé að ræða. Nánar má lesa um tillögur sem snerta gjaldtöku hér.
Gjaldtaka grundvallaratriði
„Það er grundvallaratriði að þau sem hagnast á nýtingu náttúruauðlinda greiði af því sanngjarnt gjald en það er ekki síður mikilvægt að við setjum okkur metnaðarfull og mælanleg markmið í umhverfismálum og tímasetjum vörður á leiðinni til þeirra markmiða,“ sagði Svandís.
Að þessu sagði ráðherra sérstaklega hugað í aðgerðaráætlun sem fylgi stefnumótuninni. Árið 2028 sé fyrsta varðan á leiðinni. „Við ætlumst til þess að greinin hafi náð verulegum árangri á ýmsum sviðum á árinu 2028,“ sagði Svandís sem undirstrikaði að einungis væri um drög að ræða.
„Við erum í raun og verun ennþá í samráðsferlinu, bara þannig að það sé alveg skýrt,“ sagði ráðherra og hvatti alla sem hafi hagsmuna að gæta eða hafi skoðun á málinu að senda inn athugasemdir. Að þeim fengnum verði stefnan lögð fram sem þingsályktunatillaga á Alþingi. Eftir áramót verði einnig lagt fram frumvarp um breytingar á ýmsum lögum vegna lagareldi.