Hjá Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík hefur tilraunaræktun á klóblöðku, þörungi sem aðeins finnst hér á landi, gefið góða raun. Um afbragðsgóðan matþörung er að ræða sem er talinn líklegur til að geta orðið arðbær nytjategund.

Frumniðurstöður þessarar tilraunaræktunar voru kynntar á Líffræðiráðstefnunni 2017, sem haldin var í lok október. Þar kom fram að mikil og vaxandi ásókn er í þörunga um allan heim, ýmist til matar eða til að vinna margvísleg efni úr þeim svo sem fæðubótarefni, efni til lyfjagerðar, í matvælaiðnað, í snyrtivörur og efnaiðnað. Hins vegar eru ýmsar þörungategundir sem líklegar eru taldar til nýtingar í það takmörkuðu magni í náttúrunni að ekki er mögulegt að tryggja sjálfbæra tekju þeirra.

Með þetta í huga var ráðist í tilraunaræktun á klóblöðku í Grindavík.

Klóblaðka er einlendur, íslenskur þörungur sem inniheldur virk efni sem talin eru hafa lækningamátt og geta nýst í lyfjaiðnaði m.a. í baráttu við hæggengar veirusýkingar,“ segir í kynningarefni rannsakenda og klóblaðka er því líkleg til að geta orðið arðbær nytjategund, eins og áður sagði.

Fannst fyrst árið 1900
Karl Gunnarsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir Helgi Jónsson grasafræðingur hafi fundið klóblöðku fyrst hér við land um aldamótin 1900 á Öndverðanesi.

„Hann hélt að þetta væri önnur tegund, sem finnst nokkru sunnar í Atlantshafi, eða blóðblaðka sem ber fræðiheitið Dilsea carnosa. Ég skoðaði eintök Helga sem geymd eru í grasasafninu í Kaupmannahöfn og það kom í ljós að þau eru í raun klóblaðka,“ segir Karl.

Það næsta sem gerðist, að sögn Karls, var að Sigurður Jónsson þörungafræðingur, sem bjó og starfaði í Frakklandi, fann tegundina aftur hér við land um 1970 og taldi að hún tilheyrði annarri tegund sömu ættkvíslar og klóblaðkan, en hún var þekkt við strendur Evrópu frá Ermasundi og suður til Marokkó.

„Sú staðreynd að tegundin hafði ekki fundist norðan við Ermasundið, ekki í Skotlandi, Skandinavíu eða Færeyjum fyrr en hún birtist hér við land olli grunsemdum um að klóblaðkan væri e.t.v. erfðafræðilega aðskilin frá ættingjum sínum sunnar í Evrópu. Við erfðagreiningu á klóblöðkunni kom síðan í ljós að hún var ekki bara fjarskyld Evróputegundinni heldur tilheyrði allt annarri grein í ættartrénu. Hennar nánustu „skyldmenni“ búa í Kyrrahafi. Hvernig klóblaðkan hefur borist hingað til lands í upphafi er ráðgáta,“ segir Karl og segir ennfremur að komið hafi í ljós að nokkrar tegundir þeirrar ættkvíslar sem klóblaðkan tilheyrir mynda efnasambönd sem á ensku nefnast „sulfated galactans“. Sannast hefur að þessi efnasambönd eru virk gegn ýmsum alvarlegum veirusjúkdómum.

Ágætur matþörungur
Víkur þá sögunni aftur að tilraunaeldinu í Grindavík, en það var fyrirtækið Hyndla ehf., sem þau Bjarni Bjarnason, Guðrún Hallgrímsdóttir og Gestur Ólafsson stýra, sem sýndi því áhuga að nýta klóblöðku, enda ágætur matþörungur, auk þess að vera líkleg eins og aðrar tegundir ættkvíslarinnar til að innihalda þau lífvirku efni sem tegundin inniheldur. Að sögn Karls lögðu þau áherslu á að nýtingin yrði sjálfbær og ekki hætta á að lífríkið skaðaðist af nýtingunni.

„Þau hófu eldistilraunir með klóblöðku í haust og hefur vöxtur blöðkunnar verið vonum framar. Á tveimur mánuðum hafa blöðkurnar vaxið að meðaltali í fjórfalda stærð og mest hafa einstaka plöntur ellefufaldast að þyngd. Til að gera eldi á stærri kvarða mögulegt er nauðsynlegt að kanna hvaða eldisaðstæður henta best fyrir þörunginn. Einnig eru í gangi tilraunir til að fjölga plöntunum í eldi og verður spennandi að fylgjast með hvernig það gengur,“ segir Karl.

Klóblöðku safnað
Klóblöðku var safnað í fjöru í lok júlí; 200 blöðkum af svipaðri stærð var skipt til helminga í tvö ker. Yfir kerunum voru ljós sem lýstu með sama styrk en með mismunandi litrófi. Borholusjó, með stöðugu hitastigi og seltu, var dælt í gegnum kerin og sjórinn ekki endurnýttur. Styrkur næringarefna (fosfór og nitur) í sjónum er lítið eitt hærri en er í vetrarsjó út af Reykjanesi. Blöðkurnar voru vegnar í upphafi tilraunar og tvisvar síðan, með mánaðar millibili.

„Niðurstaða var að klóblaðka óx mjög vel við tilraunaaðstæður í kerum og margfaldaði þyngd sína á stuttum tíma. Þessi árangur af ræktun klóblöðku í kerum á landi gefur tilefni til að álykta að hægt sé, við stýrðar eldisaðstæður að framleiða klóblöðku í talsverðum mæli til nýtingar.

Í því ljósi hyggst vísindafólkið á vegum Hyndlu rannsaka nánar kjöraðstæður til ræktunar bæði klóblöðku og annarra áhugaverðra íslenskra þörunga. Þá verða gerðar tilraunir með fjölgun klóblöðku í rækt; samsetning og magn virkra efna í klóblöðku verður rannsakað, m.a. með tilliti til notkunar í lyfjaiðnaði í huga.

Það segir ennfremur í gögnum vísindamannanna að tækifærin eru vissulega til staðar. Mikil og aukin ásókn er í þörunga um allan heim, ýmist til matar eða til að vinna margvísleg efni úr þeim.