Síldarvinnslan í Neskaupstað tekur á næstu vikum í notkun litla fiskimjölsverksmiðju sem mun afkasta 300 tonnum á sólarhring. Eftir áramót verður svo stóra verksmiðjan stækkuð og þá verða heildarafköstin orðin nærri 2.400 tonn á sólarhring.

„Þetta er alveg að smella á,“ segir Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. „Við erum búnir að vera prufa síðan á laugardag aðra línuna. Verið er að stilla saman búnað, mæla, dælur og fleira. Svo þetta smá mjakast. Tökum hina línuna svo þegar við verðum orðnir sáttir með þessa, líklega vika í hvorri. Svo er búið að kaupa inn talsvert af búnaði fyrir stækkunina bæði erlendis og hérlendis og er hann byrjaður að berast til okkar og uppsetning að hefjast.“

Eins og búist var við þurfti að lagfæra eitthvað og er unnið að því núna í vikunni, en verksmiðjan er með tvær vinnslulínur og er önnur prófuð í einu. Þegar hún er orðin klár verður tekið til við að prófa hina.

„Við erum að prófa okkur áfram og sjá hvort það verði einhverjir hnökrar. Eigum ekki von á því að þeir verði miklir. Megintilgangur verkefnisins er að ná fram orkuhagræðingu og geta unnið með ferskara hráefni og þar með betri afurðir,“ segir Hafþór.

„Þetta er hugsað þannig að þegar fiskiðjuverið er að vinna síld og makríl þá passi þessi stærð á móti því, þannig að við þurfum ekki að vera að safna efni og setja í gang, heldur getum gert það jafnt og þétt, og þá með eins ferskum afurðum og hægt er og þar af leiðandi ferskari afurðum frá okkur líka.“

Í frásögn á vef Síldarvinnslunnar fyrr á árinu, segir að þessari litlu verksmiðjueiningu sé „fyrst og fremst ætlað að vinna afskurð frá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar auk þess sem hún mun nýtast vel til þróunarverkefna en fyrirhugað er að leggja áherslu á vinnslu á verðmætari afurðum en hingað til hafa verið framleiddar í fiskimjölsverksmiðjum.“

Fyrst í Sólbergið

Fyrsta próteinverksmiðjan frá Héðni var sett upp um borð í frystitogaranum Sólbergi ÓF strax árið 2917, en nýja verksmiðjan í Síldarvinnslunni er sú fyrsta sem tekin er í notkun í landvinnslu hér á landi. Áður hafa verið seldar sambærilegar verksmiðjur í landvinnslur í Finnlandi, Noregi og víðar og í togara á borð við North Star sem gerður er út frá vesturströnd Bandaríkjanna.

Þessi gerð af verksmiðju er töluvert minni að umfangi en hefðbundnar fiskimjölsverksmiðjur. HPP segir þær einnig hagkvæmari í rekstri og þurfa minni orku, en í þeim er hægt að framleiða bæði mjöl og lýsi til manneldis.

Þórður Magnús og Einar Már fylgjast með að allt gangi smurt fyrir sig
Þórður Magnús og Einar Már fylgjast með að allt gangi smurt fyrir sig

Þessar litlu verksmiðjur koma frá HPP Solutions ehf, dótturfyrirtæki vélsmiðjunnar Héðins. Dótturfyrirtækið var stofnað um síðustu áramót og sérhæfir sig í að framleiða og selja litlar fiskimjölsverksmiðjur bæði í skip og landvinnslur. Starfsmenn HPP kjósa reyndar að kalla þessar verksmiðjur próteinverksmiðjur, enda mjöl og lýsi uppfullt af próteini sem vaxandi eftirspurn hefur verið eftir.

Fyrir er í Neskaupstað gamla fiskimjölsverksmiðjan sem hefur afkastað um 1.400 tonnum á sólarhring, en þegar litla verksmiðjan verður komin almennilega í gang, væntanlega vel fyrir áramótin næstu, þá verður hafist handa við að endurbæta og stækka gömlu verksmiðjuna. Stefnt er að því að hún verði komin í fulla notkun undir lok næsta árs og muni þá afkasta um 2.000 tonnum á sólarhring, þannig að samanlagt muni báðar þessar verksmiðjur í Neskaupstað afkasta tæpum 2.400 tonnum.

Ferskara hráefni

„Við stefnum á að getað keyrt þetta allt saman og jafnvel á sitthvoru hráefninu,“ segir Hafþór.

„Stóri munurinn er að það verður ferskara hráefni með því að geta farið út í þetta jafnóðum. Auk þess sem orkulega er reiknað með talsverðri hagræðingu. Það er verið að reyna að fullnýta alla orku sem kemur inn í verksmiðjuna.“

Í stóru verksmiðjunni verður ýmis nýr búnaður sem mun meðal annars spara orku umtalsvert. Síldarvinnslan segir að það verði afar orkusparandi að geta keyrt litlu verksmiðjuna þegar ekki er þörf á miklum afköstum.

Síldarvinnslan er einnig með fiskimjölsverksmiðju á Seyðisfirði og samtals hafa þessar tvær verksmiðjur tekið á móti um 240 þúsund tonnum það sem af er árinu. Að auki rekur Síldarvinnslan Fiskiðjuver í Neskaupstað og þar eru einnig stórar frystigeymslur, sem munu vera þær stærstu á landinu.

Mikið er oft um að vera og fyrr í október var alls 2.400 tonnum af mjöli og 2.000 tonnum af lýsi skipað út eina helgina, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Verðmæti afurðanna þessa einu helgi var um 1,5 milljarðar króna, en alls er búið að skipa um 30.000 tonnum af mjöli og um 12.000 tonnum af lýsi frá Neskaupstað það sem af er árinu.

Mismunandi stærðir

Próteinverksmiðjurnar frá HPP eru framleiddar í mismunandi stærðum og nýtast þannig við ólíkar aðstæður.

„Við erum búnir að búa til margar stærðir sem eru þegar komnar í notkun. Og í margs konar hráefni,“ sagði Gunnar Pálsson, verkfræðingur hjá Héðni, þegar Fiskifréttir ræddu við hann fyrr á árinu. „Það er yfirleitt sérhæft í hvert skipti og það þarf að hafa mikla þekkingu á því. Við höfum verksmiðjur sem eru frá 10 tonnum á sólarhring upp í 300, af þessari gerð.“

Hann sagði þessar íslensku HPP verksmiðjur vera nýjung sem finnist ekki annars staðar.

„Það eru auðvitað mjög margir að búa til verksmiðjur, en það eru mjög fáir eða engir sem eru með svona heildarlausn. Algengast er kannski að menn kaupa einhvern búnað og þurfa bara að koma honum saman sjálfir. En þetta er mjög sérhæfður búnaður og það eru fá fyrirtæki í þessu nú orðið.“