Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins með sjávarútvegsstjórann, Mariu Damanaki, í fararbroddi hefur lagt fram tillögu um óvenjulegan veiðiskap. Lagt er til að sjómönnum verði borgað fyrir að veiða plastúrgang á hafi úti í staðinn fyrir að draga fisk úr sjó, að því er fram kemur á vefnum fikerforum.dk.
Auðvelt ætti að vera að finna plastúrganginn því metið hefur verið að í Norðursjó einum sé árlega kastað um 20 þúsund tonnum af slíkum úrgangi fyrir borð. Tilraunaverkefni fer af stað nú í maímánuði og verður byrjað í Miðjarðarhafi. Fiskibátar fá sérstök net til að slæða plastið upp. Úrganginum verður síðan landað til endurvinnslu.
Þessi áætlun hljómar kannski ótrúlega en full alvara er á bak við hana. Hér verða slegnar tvær flugur í einu höggi. Reynt verður að draga úr ört vaxandi úrgangi sem mengar hafið og skaðar fiska- og fuglalíf. Um leið fá sjómenn auknar tekjur. Verkefnið er styrkt af ESB en í framtíðinni er reiknað með því að tekjur af ruslsöfnuninni standi undir sér.