Mikill afli hefur borist á land á Bolungarvík í júlímánuði þó hann nái ekki sama magni fyrir sama tímabil í fyrra. Alls gera 13 bátar og einn togari út frá Bolungarvík, þar af 46 strandveiðibátar. Einn þeirra sem er að stíga sín fyrstu skref í strandveiðunum er Stefán Kristinn Sigurgeirsson.
Strandveiðar standa nú sem hæst í Bolungarvík sem víða annars staðar og veiðarnar hafa gengið vel. Stefán Kristinn, 21 árs, stýrir fleynu Sædísi ÍS á sinni annarri strandveiðivertíð. Sædís er í eigu föður hans, Sigurgeirs Þórarinssonar, skipstjóra á snurvoðarbátnum Þorláki ÍS. Bróðir Stefáns Kristinn, Þórarinn, rær síðan strandveiðibátnum Sigrúnu ÍS á þessari vertíð.
Fínn mánuður
„Þetta hefur verið dálítið köflótt nema hvað upp á síðastið hefur gengið vel. Ég er að fá mikið betri fisk núna og það hefur verið stöðugri veiði á stærri fiski. Í fyrra fannst mér líka ganga vel. Þá var reyndar meiri stórfiskur og það gekk betur að finna hann,“ segir Stefán Kristinn.
Hann segir misjafnt hvert hann sæki. Hann hefur talsvert róið út í snurvoðarbleyðurnar sem er nálægt þriggja tíma stím á 10 hnútum. Þangað finnst Stefáni Kristni þó fulllangt að sækja. Hann fari líka um 25 mílur út frá höfninni til vesturs og einnig hefur hann verið að veiðum í Ísafjarðardjúpi.
„Það er ekki svo gott að ég nái alltaf skammtinum en þessi mánuður hefur verið fínn. Ég held ég hafi náð skammtinum í hvert skipti í þessum mánuði en nú er farið að ganga verulega á pottinn. Að mínu mati á potturinn að duga fyrir alla þá daga sem gefnir eru upp í byrjun. Í fyrra varð talsvert eftir í pottinum og mér finnst að það ætti að mega færa það yfir á næsta tímabil. Það hefur reyndar verið komið til móts við okkur með því að leyfa okkur að róa á „rauðu dögunum“ en þetta er bara að koma upp núna að potturinn er að klárast. Bannið við grásleppuveiðum hefur áhrif á þessa miklu veiði því allir sem hefðu verið á grásleppu byrjuðu á strandveiðunum í maí. Venjulega byrja þeir ekki fyrr en í júní,“ segir Stefán Kristinn.
500 tonnum minni afli
Á þriðjudag tók sjávarútvegsráðherra þá ákvörðun um að flytja allar óráðstafaðar aflaheimildir innan 5,3% kerfisins á þessu fiskveiðiári til að koma til móts við aukna ásókn í strandveiðar á þessu fiskveiðiári. Alls er um að ræða 720 tonn og verður heildaraflamagn til strandveiða á þessu fiskveiðiári 11.820 tonn sem er það mesta frá því strandveiðar hófust.
Stefán Pétur Viðarsson, yfirhafnarvörður í Bolungarvíkurhöfn, segir aflabrögð hafa verið mjög góð allan júlímánuð en þó ekki frábrugðin því sem jafnan er. Fyrstu 20 daga mánaðarins höfðu borist á land frá bolvískum fiskibátum um 1.700 tonn en fyrir sama tímabil í fyrra var aflinn öllu meiri, eða 2.222 tonn. Á þeim tíma var landað sæbjúgum sem er ekki hluti aflans nú. Sem fyrr segir gera 46 strandveiðibátar út af Bolungarvík og nú stendur dragnótarvertíð sem hæst. Þá hefur fiskast vel á togarann Sirrý sem Jakob Valgeir ehf. gerir út.