Að fyrstu viku strandveiða liðinni hefur Fiskistofa gefið út 410 strandveiðileyfi, langflest á svæði A (frá Snæfellsnesi í Súðavíkur) þar sem 185 leyfi hafa verið virkjuð.
Gefin hafa verið út 60 leyfi á svæði B (Strandir til Eyjafjarðar) , 69 á svæði C (Þingeyjarsveit til Djúpavogs) og 96 á svæði D (Hornafjörður til Borgarbyggðar).
Ekki hafa þó allir hafið veiðar en 353 strandveiðibátar lönduðu afla í vikunni í 937 löndunum.Rúmlega 565 tonnum af kvótabundnum botnfiski var landað í vikunni.
Á svæði A er nú búið að landa 64% af leyfilegum hámarksafla maímánaðar, um 14% á svæði B, um 26% á svæði C og um 33% á svæði D, segir í frétt á vef Fiskistofu. Það er mat starfsfólks Fiskistofu að strandveiðarnar fari vel af stað.
Starfsmenn í veiðieftirliti og við aflaskráningar verða varir við aukna sjósókn en vel hefur gengið með rafrænt umsjónarkerfi og rafræna útgáfu veiðileyfa og gengur öll afgreiðsla hraðar og auðveldar fyrir sig en á fyrri strandveiðivertíðum, segir Fiskistofa.