Haukur Eiðsson, sem rekur útgerðarfélagið Doddu ehf. á Húsavík, fékk nýlega afhentan nýjan Sóma 990 sem Víkingbátar smíðuðu, Sigrúnu Björk ÞH 100. Haukur sigldi bátnum frá Akureyri til Húsavíkur eftir að hann hafði borist landleiðina norður fyrr í þessum mánuði og er nú þegar farinn að róa.

Haukur stofnaði útgerðina 2004. Sigrún Björk er fjórði bátur útgerðarinnar sem hafði gert út tvo línubeitningarbáta á sitthvoru tímabilinu í næstum 20 ár, þ.e. Doddu ÞH, tíu metran langan Víkingbát, og Karólínu ÞH. Öll þau ár var útgerðin í samstarfi við útgerðarfélagið GPG en nú er búið að skipta útgerðinni upp og er Haukur einn í forsvari ásamt eiginkonu sinni.

Haukur Eiðsson landar úr sínum fyrsta róðri. FF MYND/HAFÞÓR
Haukur Eiðsson landar úr sínum fyrsta róðri. FF MYND/HAFÞÓR

10 þúsund tonn á 14 árum

„Þetta er bara færabátur og má segja að ég sé að hægja á mér. En þetta er frábær bátur. Gangmikill og mjög vel smíðaður. En það eru vissulega tíðindi þegar það kemur nýr bátur hingað því líklega var síðasti nýi báturinn á Húsavík seinni Karólínan árið 2007 sem var 15 tonna Víkingbátur. Við fiskuðum á hann hátt í 10 þúsund tonn á fjórtán árum,“ segir Haukur.

Hann segir að hann verði annaðhvort einn á bátnum eða við annan mann, það sé ekki frágengið. Á bátnum er 75 þorskígildistonna kvóti og aflinn verður seldur á markaði.