Ólafur segir alveg ljóst að Eskja hf. hafi ekki haft neina hagsmuni af því að vera með umtalsverða starfsemi á Vopnafirði vegna nálægðarinnar við Eskifjörð.
„Þeir keyptu þessi 40% í Tanga vorið 2004 fyrst og fremst til að ná sér í kvóta, semþá vantaði. Þegar sveitarfélagið keypti hlut Eskju til baka fékk Eskja loðnukvóta, sem metinn var á um 300 milljónir króna og sveitarfélagið þurfti að fjárfesta fyrir um 700 milljónir og steypa sér í stórskuldir. Nú tveimur árum síðar er eign sveitarfélagsins í HB-Granda metin á um 650 milljónir króna og hefur vaxið upp á síðkastið. Sveitarfélagið átti áður Tanga alfarið og þetta var eiginlega síðasta bæjarútgerð landsins en síðan var farið að auka aflaheimildir með því að fá fleiri inn í hlutafélagið. Það voru svo þessir aðilar sem seldu Eskju sína hluti. Sveitarfélagið var þá með um 50% hlut í Tanga og eignaðist hlutafélagið að fullu þegar keypt var af Eskju. Þegar staðan var orðin þessi fengum við Sparisjóðabankann til að kaupa hlut með okkur og síðan fórum við að leita að fyrirtæki til að koma þarna inn. HBGrandi var að skoða nokkra staði en við vorum kannski þeir einu sem vorum tilbúnir að láta allt af hendi til þeirra. Síðan vorum við með viðskiptasamning við Svan RE og eigendur hans voru tilbúnir að koma inn í þetta með okkur. Frá þessu var svo gengið í október 2004 og formlega hófst starfsemi HB-Granda hér í ársbyrjun 2005,” segir Ólafur Ármannsson um aðdragandann.
Hafnarframkvæmdir ein af forsendunum
Síðan þá hafa hlutirnir gerst hratt. Ólafur segir að HB-Grandi hafi strax farið að fjárfesta á Vopnafirði. Fyrirtækið hafi byrjað á að kaupa fullkominn síldarverkunarbúnað frá Djúpavogi og sett hann upp á Vopnafirði.
„Eins dauði er annars brauð, eins og það er nú skemmtilegt, eða hitt þó heldur,”segir hann og hefur ákveðna samúð með Djúpavogsbúum vegna þessa. Þetta hafi orðið til þess að margfalda verðmæti síldarinnar og auka síldarfrystingu til muna. Nú hafi fleiri skip verið komin til sögunnar sem um leið hafi þýtt aukin umsvif við höfnina.
Ólafur segir sveitarfélagið ekki hafa lagt áherslu á að selja hlut sinn í HB-Granda heldur hafi áherslan verið lögð á að fá fyrirtækið til að fjárfesta á Vopnafirði.
„Ein af forsendunum fyrir því að HB-Grandi fer í fjárfestingar hér er sú staðreynd að sveitarfélagið hefur staðið í miklum hafnarframkvæmdum. Hér er komin ný innsigling og ný viðlega við hafnarkant sem verður þegar upp er staðið 240 metra langur með 10 metra dýpi á stórstraumsfjöru. Við höfum notið stuðnings ríkisvaldsins við þessar framkvæmdir og þar var skilningur á þessum framkvæmdum. Við þessa höfn hefur orðið til mikil uppfylling sem aftur skapar mikið landrými til að byggja á, hvort sem er fyrir bræðsluna eða aukið frystirými. Ég held að þetta hafi verið það sem hafi vegið þyngst í því að forsvarsmenn HB-Granda völdu Vopnafjörð.“
Tvær bræðslur sín á hvoru landshorninu
Ólafur segir fleira eiga eftir að fylgja í kjölfar þeirra framkvæmda sem HB-Grandi hafi nú ákveðið.
„Þeir auka ekki bara frystigetuna á loðnunni. Það er margt fleira sem hangir á spýtunni, þá þarf stærri frystigeymslur og bræðslan á eftir að stækka. Eitt af því sem samið var um innan gæsalappa, þegar þetta gekk í gegn, var að þeir myndu leggja niður bræðsluna í Örfirisey og flytja tækin hingað. Þeir eru hættir með bræðsluna Þorlákshöfn og það er öruggt að HB-Grandi rekur bara fiskimjölsverksmiðjur á Akranesi og Vopnafirði í framtíðinni. Þær eru sín á hvorum enda landsins og vinna vel saman. Við erum alveg sáttir við að hráefnið fari til Akraness þegar styttra er þangað af miðunum. Það kemur ara í staðinn til okkar í annan tíma,” segir Ólafur.
Ekkert erlent vinnuafl
Vopnafjörður hefur þá sérstöðu, umfram önnur sjávarpláss, að þar sjá heimamenn um alla fiskvinnslu. Þar hefur aldrei þurft að flytja inn vinnuafl í fiskvinnslu.
„Þetta er okkar stóriðja”, segir Ólafur og bendir á að um 120 störf séu hjá HB-Granda á Vopnafirði sem sé ekki lítið í sveitarfélagi sem telji 740 manns og fyrirtækið sé að fjárfesta fyrir fjárupphæðir sem ekki hafi sést á Vopnafirði áður. Hann segir Vopnfirðinga ekki hafa gert neina kröfu um menn í stjórn eða varastjórn hjá HB-Granda þrátt fyrir eignarhlut.
„Við höfum góða tengingu þarna inn, til dæmis með því að fyrrverandi framkvæmdastjóri Tanga er þar yfir uppsjávardeildinni. Svo erum við að horfa á mörg hliðarstörf hér. Iðnaðarmenn fá mikla vinnu og HB-Grandi hefur lagt mikið upp úr að skipta við þá. Til dæmis koma iðnaðarmenn héðan til með að taka fullan þátt í þeim breytingum sem nú eru framundan. Fyrirtækið sér líka hag í því að hafa hér menn sem þekkja til ef eitthvað kemur upp á og sinna þarf viðhaldi,” segir Ólafur.
Hann segir heimamenn almennt sátta við stöðuna í dag. Auðvitað hafi Vopnfirðingar séð eftir því að láta yfirráð yfir aflaheimildum af hendi. Á móti hafi kornið að fólk sá ekki alveg fyrir sér að svona lítið fyrirtæki gæti spjarað sig í þeirri miklu samþjöppun sem hefur átt sér stað í sjávarútvegi.
„Jú ég held að Vopnfirðingar séu ágætlega sáttir og bjartsýnir á framtíð fyrirtækisins hér,” segir Ólafur Ármannsson.