Það hefur verið landburður af fiski hér í Grímsey alveg frá því að aðalþorskfiskiríið byrjaði í kringum 20. janúar,“ sagði Sæmundur Ólason trillukarl í eynni í samtali við Fiskifréttir þann 3. mars 2006.
„Við höfum komist upp í rúm 9 tonn á 20 bala og algengur afli hefur verið 4-7 tonn. Þá er miðað við 420 króka á bala. Menn eru í fýlu ef þeir fara niður fyrir 300 kílóa afla á balann! Þorskurinn er sérstaklega vænn og vel á sig kominn, vænni en undanfarin ár. Ekki veit ég hvaðan hann kemur, kannski af Grænlandsmiðum. Þar er ævintýralegur uppgangur í þorskstofninum við Grænland. Ef til vill er hann svona vænn af því að hann hefur komist í loðnu hérna fyrir norðan í haust og vetur þótt leitarskipin hafi ekki fundið loðnuna.
Þorskurinn hvarf út af grunnunum hérna í ágúst/september og lítið sást til hans allt þar til eftir miðjan janúar að hann virtist skríða til baka, spikfeitur og fallegur. Það er alls staðar fiskur hérna í köntunum dýpra til. Við höfum róið djúpt rétt vestan við Tjörnesgrunnið, þar ofan í Skjálfandann, neðan við 150 faðmana. Þorskurinn fæst síður uppi á grunninu núna og hann er lélegri og jafnframt ýsublandaðri. Eins er með netabátana hérna, þeir leggja netin niður á 200 faðma. Afli í net hefur verið sérstaklega góður núna í vetur miðað við mörg undanfarin ár. Fara þarf áratugi aftur í tímann til þess að finna viðlíka netaafla.”
Friðun fyrir togaraveiðum
Að sögn Sæmundar virðist vera mjög mikið af þorski við Norðurland núna samanborið við mörg undanfarin ár.
„Ástand þorskstofnsins er að minnsta kosti ekki eins dökkt og Hafrannsóknastofnun vill vera láta. Það er ég sannfærður um. Það er mjög lítið mál að veiða þorsk í dag og það virðist gilda um miðin allt í kringum landið. Þá má nefna að miðin hér fyrir norðan hafa fengið nánast algjöran frið fyrir togurunum á seinni árum enda mega þeir ekki veiða neinn þorsk lengur að heitið geti. Þeir eru reknir í eitthvert skrap og taka svo þorskskammtinn sinn á einum sólarhring áður en þeir halda heim aftur,“ sagði Sæmundur Ólason.
Prýðisfiskiríi í allan vetur
„Það var ekki hægt að róa mikið héðan frá Bakkafirði í febrúarmánuði en þegar gaf á sjó var aflinn prýðilegur eða frá þremur og upp í sex tonn á 16-18 bala. Alveg frá því í haust hefur aflinn verið mikið þetta frá 200-250 kíló á balann og allt upp í 300-350 kíló þegar mest hefur verið, en svo sjást einstaka róðrar allt niður í 50 kíló á balann eins og gengur. Þetta er auðvitað sveiflukennt en í það heila tekið hefur verið mjög drjúgt á línuna í vetur og aflinn betri framan af vetri en undanfarin ár,“ sagði Marinó Jónsson, trillukarl á Bakkafirði, í samtali við Fiskifréttir.
„Fiskurinn hefur líka verið óvenjustór miðað við veiðisvæðið hér. Það er miklu meira af stórum fiski í aflanum en áður. Ekki kann ég skýringu á því, nema ástæðan sé að hluta til sú að við höfum sótt meira út í dýpið en áður.“
Marinó sagði að vegna góðra aflabragða væru flestir línubátanna frá Bakkafirði nánast búnir með kvóta sína.
Meira af stærri fiski á ferðinni
Fiskifréttir báru fréttirnar um mokafla línubátanna undir Björn Ævarr Steinarsson fiskifræðing á Hafrannsóknastofnun og spurðu hann hvort einhverjar fiskifræðilegar skýringar væru á þessum góðu aflabrögðum.
„Alkunna er að ýsustofninn hefur verið í örum vexti á undanförnum árum og síðan má nefna að þorskárgangarnir frá 1997-2000, sem voru þokkalegir að styrkleika, hafa verið áberandi í veiðinni. Þar af leiðandi er meira af stærri fiski á ferðinni en á undanförnum árum. Þetta hvort tveggja kann að hafa áhrif á það að vel veiðist, en að auki gefur fiskurinn sig misvel frá einum tíma til annars eins og sjómenn þekkja.
Togararallið er nýlega hafið og það ætti að gefa góða mynd af því sem er að gerast á miðunum. Nú liggja fyrir gögn um afla á sóknareiningu á árinu 2005 og þar kemur ekkert á óvart eða sem bendir til að að ástandið sé frábrugðið því sem við höfðum áætlað,“ sagði Björn Ævarr.
Í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar sem gefin var út í byrjun júní í fyrra segir að flest bendi til þess að veiðistofn og hrygningarstofn þorsksins stækki lítið á næstu árum ef farið verði eftir núgildandi aflareglu. Er þetta sagt stafa af slakri nýliðunar en þrír af fjórum yngstu árgöngunum eru metnir undir meðallagi, þar með talinn árgangur 2001 sem er einn sá minnsti sem fram hefur komið á undanförnum áratugum