Jón Gunnlaugsson í Íslenska lúðubankanum í Höfnum reiknar með því að slátra um 10 tonnum af rúmlega fimm kílóa lúðum nú í vetur. Lúðurnar, sem dragnótarbáturinn Farsæll GK veiddi og kom með lifandi að landi sumrin 1993 og 1994, voru um eitt kíló að þyngd og hafa þær tekið mjög vel við fóðri og dafnað einstaklega vel í eldinu hjá Íslenska lúðubankanum.

Jón segir hlutfall smálúðu sem aukaafla á skarkolaveiðunum hafa minnkað mikið undanfarin ár og í sumar hafi hann aðeins tekið við á milli 150 og 200 smálúðum.

„Ég ákvað að láta reyna á það hvort nægilegt magn fengist en það kom fljótlega í ljós að lúðuaflinn var það lítill að það tók því ekki að standa í þessu,“ segir Jón en hann hrósar útgerð og áhöfn Farsæls GK fyrir samstarfið. Skipverjar hafi verið mjög jákvæðir og haft gaman af því að hirða lúðuna og halda í henni lífinu.“

Miklir möguleikar í lúðueldi hérlendis

Að sögn Jóns er það mjög arðvænleg atvinnugrein að hirða smálúðuna lifandi og ala hana frá u.þ.b. eins kílós þyngd og upp í rúm fimm kíló. Til þess að eldið skili hámarks arði þurfi þó mikið magn en alls sé hægt að vera með um 50 tonn af fiski í eldi í stöðinni í einu. Æskilegt sé því að fá a.m.k. 5.000 smálúður inn í stöðina á hverju ári til þess að hægt sé að reka hana með hámarks afköstum og á sem hagkvæmastan hátt.

Fiskifréttir 15. september 1995.
Fiskifréttir 15. september 1995.

Jón slátrar lúðunum á veturna þegar framboð af lúðu á heimsmarkaði er hvað minnst.  Lúðunni er slátrað eftir óskum kaupenda þannig að tryggt er að þeir fái alltaf nýtt og ferskt hráefni.

Helsti markaður fyrir rúmlega fimm kílóa lúður er í Hollandi, Frakklandi og Bretlandi og að sögn Jóns var verðið í fyrra um 800 krónur fyrir kílóið (FOB-verð í Keflavík). Hver lúða leggur sig þannig á um 4.000 krónur miðað við afhendingu á Keflavíkurflugvelli.

„Við höfum alla möguleika á því að verða mjög stórir framleiðendur á eldislúðu á meðan  möguleikar okkar í t.d. laxeldi eru ekkert betri en margra annarra þjóða. Kjörhiti fyrir lúðueldi er 6-9 gráður á Celsíus og borholusjórinn hér í Íslenska lúðubankanum er t.a.m. 8,3 gráðu heitur og algjörlega laus við óæskileg efni,“ segir Jón. Í framtíðinni vonist hann til þess að geta keypt jöfnum höndum lifandi smálúður og lúðuseiði til frekara eldis.

Íslenskur sólkoli í sushi-rétti

Meðal þess, sem Jón hefur reynt að undanförnu, er tilraunaútflutningur á lúðu og ýmsum kolategundum fyrir svokallaða sushi-veitingastaði í Japan, Bandaríkjunum og víðar. Til eru margar gerðir sushi-veitingastaða og á þeim dýrustu getur máltíð af sérhæfðum sushi-réttum úr besta hráefni kostað um 20.000 til 30,000 krónur.

„Sólkolinn hefur komið mjög vel út í þessari tilraun og hefur fiskurinn þótt henta mjög vel í sushi. Til þess að ná sem bestum árangri þá þyrftum við að taka fiskinn lifandi og geyma hann í tönkum um borð í veiðiskipum. Síðan væri hægt að fullvinna sólkolann hér, pakka honum og frysta við mjög mikið frost. Eins má segja að útflutningur á lifandi fiski kæmi til greina og ef mér tækist að koma lifandi sólkola eða lúðu til Japan þá gætu 6.000-8.000 krónur fengist fyrir kílóið,“ segir Jón en auk þess sem hann elur lúðu í eldiskörum í Íslenska lúðubankanum þessa dagana, þá hefur hann um nokkurt skeið staðið í sérstæðri útgerð.

Tuttugu þúsund gestir heimsækja Sæfiskasafnið

„Ég geri út á ferðamenn,“ segir Jón og hlær en sem fyrr segir er rétt ár síðan hann setti á stofn Sæfiskasafnið í Höfnum. Nú stefnir í að alls 20 þúsund gestir heimsæki safnið fyrsta starfsárið og þar af eru fjölmargir erlendir ferðamenn.

„Ég er kominn með bát og býð ferðamönnum upp á það að fara í tveggja tíma veiðiferð hér út fyrir Hafnir. Aflinn er flakaður og grillaður í Sæfiskasafninu og hefur þetta mælst mjög vel fyrir meðal ferðamanna. Nú er í athugun að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir og ferðir út að Eldey og eins er í ráði að halda námskeið fyrir íslenska líffræðikennara og tengja starfsemi safnsins námi barna og unglinga,“ segir Jón Gunnlaugsson.