Aðalsteinn hefur áhyggjur af þeirri breytingu á hámarks möskvastærð í þorskanetum sem sjávarútvegsráðuneytið hefur ákveðið frá og með næsta fiskveiðiári, en þá verður bannað að nota stærri riðil en átta og hálfa tommu.

„Það er nauðsynlegt að Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðuneytið átti sig á því að þetta bann mun skapa mikil vandræði. Stóri fiskurinn hefur haldið uppi verðinu á afla netabátanna. Kaupendur bjóða til dæmis í einhver bretti af stórum fiski og þá er unnt að láta fylgja með töluvert magn af smærri fiski. Þannig er hægt að hífa upp verðið á allri sendingunni. Það er víst nóg veitt samt af smærri fiskinum á línu, handfæri og í snurvoð þótt netin bætist ekki við. Menn verða líka að taka með í reikninginn að þegar verðið á smærri þorskinum er orðið svona lágt er meiri hvati til þess að fleygja smæsta fiskinum ef bannað er að veiða þann stóra með,“ sagði Aðalsteinn.

Stór fiskur kemur í fleiri veiðarfæri en net

Aðalsteinn segir að Hafró geri alltof mikið úr því að sókn í stóra fiskinn sé orðin óhófleg.

„Fjöldi netabáta notar aldrei 9 tommu riðil, hvað þá stærri. Ætli það séu nema 10-15% bátanna sem það gera? Sem dæmi má nefna að Hornfirðingarnir nota lítið net með þessari möskvastærð og sama er að segja um Þorlákshafnarmenn og Grindvíkinga. Svo má líka spyrja, hvers vegna er þessum verndunaraðgerðum eingöngu beint gegn netabátum? Stóru línubátarnir og dragnótabátarnir drepa líka stóran fisk. Talað var um að með tilkomu sigurnaglalínunnar hefði meðalþyngd á þorski í afla línubátanna hækkað. Ætti þá ekki samkvæmt þessari kenningu að banna notkun sigurnaglans? Nei, ég get engan veginn skilið að þorskstofninum verði rústað ef leyft verður að veiða með 9 tommu riðli á hávertíðinni.“

10 til 20 prósent tekjuminnkun

Fiskifréttir 14. maí 2004.
Fiskifréttir 14. maí 2004.

Tekur þú þú ekki undir rök Hafró um að vernda þurfi stóra fiskinn vegna þess að hann sé miklu verðmætari fyrir hrygninguna en smærri fiskur?

„Jú, það kann að vera eitthvað til í því, en ef við höfum annars vegar 1.000 stóra fiska og hins vegar 10.000 smáa fiska, hlýtur þá ekki að vera betra að vernda smáfiskinn því einhvern tímann verður hann stór? Nú segja þeir að hrygningarstofn þorsksins sé að stækka. Ætli hrygning smærri fisks eigi ekki einhvern þátt í því líka? Það veiðast kannski 10 þúsund tonn af 8+ þorski á öllu árinu og þorskstofninn getur ekki verið svo valtur að hann fari á höfuðið við það. Nei, ég tel óhætt og eðlilegt að leyft verði að veiða með 9 tommu riðli frá miðjum febrúar og út apríl. Það er okkar krafa. Verði ekki orðið við henni tel ég að við eigum heimtingu á bótum vegna tekjutaps rétt eins og smábátaeigendur krefjast sífellt bóta fyrir eitt og annað. Afnám 9 tommu riðilsins mun þýða 10-20% samdrátt í aflaverðmæti hjá okkur.“

Bylting í tækni og aflameðferð

Aðalsteinn man tímana tvenna í netaveiðum enda byrjaði hann á þessum veiðiskap árið 1959.

„Það hafa náttúrlega orðið gífurlegar breytingar á þessum veiðiskap. Í fyrsta lagi er vinnan um borð mörgum sinnum léttari nú en áður vegna þeirrar tæknibyltingar sem orðið hefur í þessum veiðum sem líkja má við tilkomu kraftblakkarinnar í nótaveiðunum á sínum tíma. Þá eru netin núna miklu meðfærilegri eftir að flotteinninn og blýteinninn leystu kork og steina af hólmi. Í gamla daga voru 10 karlar að draga átta netatrossur en nú eru þeir fjórir. Í öðru lagi er meðferð aflans allt önnur og betri nú en áður og þar af leiðandi fæst miklu meira fyrir fiskinn. Nærri lætur að menn geti lifað af fimmtungi þess afla sem þeir áður gerðu. Nú er allur fiskur ísaður í kör og aldrei gerður tveggja nátta í netunum. Ég man þá tíð að aflinn var sóttur á 20 hjóla trukkum með 3ja metra skjólborðum, ofan á hann var dengt 100 netum og síðan ekið langa vegu. Nei, það er óhætt að segja að netaveiðar eru ekki sami þrældómurinn og áður var. Nú er farið að leita að manni ef maður er ekki kominn í land um kaffileytið,“ sagði Aðalsteinn Einarsson.