Nígerískir skreiðarinnflytjendur skulda nú íslenskum framleiðendum um fimm milljónir dollara vegna skreiðar sem var framleidd og seld til Nígeríu gegn opnum ábyrgðum fyrir 1984. Samkvæmt núverandi gengi er skuld Nígeríumanna því um 205 milljónir króna.
Nokkur skriður hefur komist á greiðslur að undanförnu og nýlega fengu framleiðendur innan sjávarafurðadeildar Sambandsins 1.1 milljón dollara eða um 46 milljónir króna frá Nígeríu og var það lokagreiðsla vegna skreiðar sem seld var fyrir 1983.
Samlag skreiðarframleiðenda á um fjórar milljónir dollara útistandandi en þar eiga menn von á greiðslu upp á 1,2 millj. dollara innan skamms. Skuld Nígeríumanna við íslensku umboðssöluna er svo um ein milljón dollara. Þó vænlega horfi nú með endurgreiðslur, er það þó áhyggjuefni að Nígeríumenn námu úr gildi innflutningsleyfi á skreið um sl. mánaðamót en hér á landi eru nú til vel á annað hundrað þúsund pakkar af skreið sem hvergi er hægt að koma í verð nema í Nígeríu.
Gripið til örþrifaráða
Nær allri skreiðarframleiðslu á Nígeríu var hætt eftir 1983 í kjölfar efnahagsþrenginga og innanlandsátaka þar í landi en þá voru til miklar birgðir hér á landi. Fram til 1983 var skreiðin undantekningarlaust seld gegn evrópskum bankaábyrgðum en fyrir þær var tekið í kjölfar bágs efnahags Nígeríumanna. Íslenskir söluaðilar gripu þá til þess örþrifaráðs að selja skreiðina til Nígeríu gegn svokölluðum opnum ábyrgðum, þ.e.a.s. án þess að bankar utan Nígeríu gengju í ábyrgð fyrir greiðslum og það eru þær skuldir sem nú er verið að innheimta.
Gengisþróun og vaxtakostnaður hafa reyndar gert það af verkum að framleiðendur geta í mesta lagi vænst þess að fá fyrir afurðalánunum en tap þeirra er auðvitað orðið gífurlegt.
Óvissa um framhaldið
Í samtölum blaðamanns Fiskifrétta við forráðamenn sölusamtakanna kom fram að framleiðendur innan Samlags skreiðarframleiðenda eiga nú óselda um 80 þúsund pakka af Nígeríuskreið en nær allir hausar eru farnir. Útistandandi skuldir í Nígeríu nema um fjórum milljónum dollara.
Hjá sjávarafurðadeild Sambandsins hefur birgðastaðan verið áætluð um 70 þúsund pakkar en þar af eru nú um 17 þúsund pakkar seldir gegn fyrirframgreiðslu eða evrópskum bankaábyrgðum og farnir til Nígeríu. Sambandið hefur fengið lokagreiðslu vegna skreiðarinnar en þess má geta að í árslok 1983, skulduðu Nígeríumenn framleiðendum innan Sambandsins um tíu milljón dollara.
Ekki fengust upplýsingar um birgðastöðu hjá íslensku umboðssölunni að öðru leyti en því að allir hausar væru seldir. Sagði talsmaður fyrirtækisins að það þjónaði engum tilgangi að gefa upp slíka tölu því það væri mjög óljóst hverjir myndu selja þá skreið sem eftir væri í landinu.
Leyfin runnin úr gildi
Öll innflutningsleyfi á skreið sem gefin höfðu verið út í Nígeríu, runnu úr gildi um síðastliðin mánaðamót, en ekkert bann er við innflutningi á hausum. Fyrir þennan tíma skipuðu Norðmenn út miklu af skreið og talsvert magn fór einnig héðan. Mikil óvissa hefur ríkt um framhaldið en gefum talsmönnum sölusamtakanna orðið:
„Það er mjög lítið vitað um það hver framvinda mála verður. Það er sagt að eitthvað af þessum innflutningsleyfum verði framlengd og e.t.v. verði eitthvað gefið út af nýjum leyfum,“ sagði Ólafur Björnsson, stjórnarformaður Samlags skreiðarframleiðenda.
Lækkandi olíuverð þungt fyrir Nígeríu
Að sögn Ólafs hafa Nígeríumenn átt í miklum erfiðleikum með að útvega gjaldeyri og hafa reyndar þurft að kaupa hann á margföldu verði. Ástæðan fyrir þessum þrengingum er sú að Nígeríumenn hafa nær alfarið treyst á olíutekjur en olíuverðlækkunin að undanförnu hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir efnahag landsins.
„Það er fullyrt að þessi lækkun komi verr fyrir þá en væri með okkur ef fiskurinn okkar lækkaði um 60 til 70 prósent í verði á skömmum tíma, sagði Ólafur Björnsson.
Ragnar Sigurjónsson hjá sjávarafurðadeild Sambandsins sagði að tvennum sögum færi af því hvað myndi nú gerast í Nígeríu. Leyfi hefðu verið gefin út fyrir innflutning á hausum en biðstaða væri í skreiðinni.
Óvissa um innflutningsleyfin
„Menn búast við því að annað hvort verði alveg lokað á skreiðina eða að leyfin verði framlengd eitthvað. Reyndar heyrist því fleygt að ný leyfi verði gefin út alveg á næstunni en því trúir enginn fyrr en hann tekur á því,“ sagði Ragnar Sigurjónsson.
Að sögn Árna Bjarnasonar hjá Íslensku umboðssölunni herma þeirra heimildir að von sé til þess að innflutningsleyfi fáist framlengd um einn til tvo mánuði.
„Nígeríumenn hafa gefið þetta í skyn en jafnframt sagt að um lengri framlengingu verði ekki að ræða,“ sagði Árni Bjarnason.
Þessi frétt birtist í Fiskifréttum 11. júlí 1986.