Gagnsæi í fjármálum hafna og skýrar heimildir til rafrænnar vöktunar eru meðal þeirra atriða sem til stendur að breyta í hafnalögum. Einnig er lagt til nýtt ákvæði um gjald fyrir eldisfisk sem lestaður er eða losaður í höfnum, auk þess sem heimild verður veitt til þess að gjaldskrár hafna taki mið af umhverfissjónarmiðum.
Innviðaráðuneytið hefur sett drög að frumvarpi um breytingar á hafnalögum til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda, en frestur til að senda inn umsagnir rennur út í byrjun næstu viku, eða 21. mars.
Meginefni frumvarpsins lýtur að innleiðingu ákvæða ESB-reglugerðar um að setja ramma um veitingu hafnaþjónustu ásamt því að settar verði sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum.
„Með því að bæta aðgengi að hafnarþjónustu, innleiða gagnsæi í fjármálum og kveða á um sjálfstæði hafna er ætlað að gæði og skilvirkni þjónustu við hafnarnotendur muni aukast ásamt því að draga úr kostnaði fyrir flutningsþega og stuðla að eflingu flutninga á stuttum sjóleiðum og betri samþættingu sjóflutninga við aðra flutningsmáta,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Hvað varðar rafræna vöktun, þá segir í greinargerðinni að myndavélaeftirlit sé nú þegar viðhaft á mörgum hafnasvæðum og algengt sé að rauntímaefni sé sýnt á vefsíðum hafna til þess að bátaeigendur geti fylgst með bátum sínum og veðurlagi. Auk þess hafi skipstjórnarmenn notað þessar upplýsingar til að sjá hvar laus pláss við hafnir eru.
„Þörf er á lagaheimild fyrir vinnslu persónuupplýsinga svo að gildandi réttur fullnægi kröfum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga,“ segir í greinargerðinni.