Þekkingarfyrirtækið Dystia hefur þróað heildstæða lausn sem lýtur að meðhöndlun frárennslis frá laxeldi en fyrirtækið setti nýlega upp sitt fyrsta kerfi í nýrri laxavinnslu Arctic Fish í Bolungarvík. Lausnin er sögð mun skilvirkari en áður hefur þekkst jafnframt því að vera ódýrari en flest sem hefur verið í boði hingað til. Dystia sér fyrir sér tækifæri víða um heim fyrir þennan búnað.

Byrjað er að keyra kerfið í Bolungarvík og fylgist Dystia grannt með virkni þess og vinnur að fínstillingum. Arctic Fish efndi til útboðs á þessum þætti í byrjun síðasta árs og þótti lausn Dystia tæknilega best og auk þess hagkvæmust.

Stífari kröfur fram undan í Noregi

Arctic Fish er í meirihlutaeigu norska laxeldisrisans Mowi sem er stærsta laxeldisfyrirtæki heims og framleiðir um 30% af öllum eldislaxi í heiminum. Það rekur sláturvinnslur víða um heim, m.a. í Noregi, Skotlandi, Færeyjum, Íslandi, Chile og Kanada. Margar þessara stöðva standa frammi fyrir því að þurfa að gera breytingar á vatnshreinsibúnaði sínum vegna hertra reglugerða. Það er því stærri árangur en í fyrstu virðist að Dystia hafi náð samningi um uppbyggingu slíks kerfis fyrir Arctic Fish. Þegar búnaðurinn hefur sannað sig í Bolungarvík má segja að flestar dyr standi fyrirtækinu opnar í alþjóðlegum fiskeldisiðnaði.

„Þetta er öflugt og skilvirkt fjölþrepa kerfi og besta heildarlausnin hér á landi og þótt víðar væri leitað og því afar ánægjulegt að sjá þann metnað sem Arctic Fish sýnir í þessum málum. Við göngum með þessu mun lengra í vatnshreinsun en gengur og gerist annars staðar, til að mynda í Noregi en þar er nú verið að herða löggjöfina veru[1]lega varðandi frárennsli. Flestar eða jafnvel allar laxavinnslur þar í landi munu þurfa að bæta þau kerfi sem þær eru með núna. Okkar kerfi á að geta uppfyllt þessar nýju kröfur sem byggja á BAT (e. best available technique) og taka gildi í lok þessa árs,“ segir Guðjón Ingi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Dystia.

Heildarlausnir og þjónusta

Miðað við núverandi kröfur um meðhöndlun frárennslisvatns í laxasláturhúsum í Noregi, eru kröfurnar hér á Íslandi mun strangari, en með nýrri löggjöf í Noregi verða kröfurnar á svipuðu róli í lok þessa árs. Hjá Dystia sáu menn að tækifæri lágu í þróun skilvirkari búnaðar fyrir laxasláturhús auk þjónustu við þann búnað. Nú er Dystia ennfremur að endurbæta og uppfæra vatnshreinsikerfi hjá Arnarlaxi með sínum tæknilausnum og segir Guðjón Ingi tæknilausnir fyrirtækisins henta laxeldisiðnaði um allan heim. Dystia ætlar að bjóða heildarlausnir auk þjónustu við kerfin sem sé afskaplega mikilvægur þáttur.

„Laxeldisstöðvum fer líka fjölgandi hér á landi með landeldisstöðvum sem eru í uppbyggingu til dæmis við Þorlákshöfn og í Vestmannaeyjum og verða farin að slátra fiski inn tveggja til þriggja ára. Þessi fyrirtæki þurfa einnig að undirgangast þessar ströngu reglur hvað varðar hreinsun á frárennslisvatni frá laxaslátrun. “

Kerfið framleiðir sinn klór

Guðjón Ingi segir þann þátt í ferlinu sem lýtur að sótthreinsun vatnsins einkar mikilvægan til að draga úr þeirri hættu að smit berist úr sláturhúsum út í sjó og í aðra fiska. Smit af þessu tagi geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér eins og dæmin hafa sýnt og því er það ekki síður hagur fyrirtækjanna sjálfra að hafa þessa hluti í góðu lagi.

„Í kerfinu okkar hjá Arctic Fish er búnaður sem framleiðir klór, í lokuðu kerfi, úr sjónum sem nýttur er til þess að sótthreinsa frárennslisvatnið áður en það fer út í sjó aftur,“ segir Guðjón Ingi. Í laxaslátrun Arctic Fish geta verið notuð allt upp í 1.000 tonn af vatni á dag en 70-80% þess vatns sem notað er í laxaslátur[1]húsum er sjóvatn. Innbyggt er í vatnshreinsikerfi Dystia búnaður sem býr til klór, í lágum styrk, úr sjó með íslensku rafmagni, en hann hverfur þegar hann hefur gert sitt gagn. Með þessu kerfi þarf því ekki að flytja tilbúinn 15% klór erlendis frá, en mikið magn þarf af honum við sótthreinsun á svona miklu magni af frárennsli. Við þetta sparast því kolefnispor auk þess sem starfsfólk þarf ekki að meðhöndla svona vandmeðfarið efni. Í sláturhúsi Arctic Fish er einungis ein lögn sem liggur út í sjó og sú lögn kemur beint úr vatnshreinsikerfinu. Ómeðhöndlað vatn á því enga leið út í sjó. Til fleiri nota Dystia sækir hugvitið og tæknina víða, meðal annars frá Singapore, Kanada, Kína og Indlandi en sjálf eru tækin síðan smíðuð í tveimur síðarnefndu löndunum. Heildarlausnin byggir síðan á þessum þáttum og forskrift og hugviti frá Dystia sem er sérsniðið að þörfum viðskiptavinarins og reglugerða viðkomandi landa. Tækin eru sett saman í þeim löndum þar sem þau verða sett upp. Búnaði af þessu tagi fylgir auðvitað stofnkostnaður og rekstrarkostnaður en Guðjón Ingi segir að hann sé orðinn óaðskiljanlegur hluti þess að starfrækja matvælavinnslu.

„Okkar kerfi á að geta uppfyllt þessar nýju kröfur sem byggja á BAT (e. best available technique) og taka gildi í lok þessa árs," segir Guðjón Ingi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Dystia.
„Okkar kerfi á að geta uppfyllt þessar nýju kröfur sem byggja á BAT (e. best available technique) og taka gildi í lok þessa árs," segir Guðjón Ingi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Dystia.

„Fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega þurfa að vera með hlutina í góðu lagi, hvort sem það snýr að framleiðslunni sjálfri eða úrgangi og öðru sem kemur frá vinnslunni. “

Guðjón Ingi segir ríkari kröfur gerðar til hreinsunar á frárennslisvatni frá laxasláturhúsum en frá öðrum iðnaði. Kerfi Dystia sé hannað út frá þeim kröfum og því sé hægt að yfirfæra búnaðinn á annan iðnað eins og almenn sláturhús og jafnvel frárennsli minni sveitarfélaga og kerfin er hægt að skala upp og niður. Enn fremur er hægt að bjóða kerfin án sótthreinsunar til fyrirtækja sem ekki þurfa að sótthreinsa frárennslið.