Áhugi er fyrir því hjá Landhelgisgæslunni að halda áfram samstarfi við Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA). Einn af þeim möguleikum sem eru til skoðunar er þyrludróni sem hafður yrði á einu af varðskipum Landhelgisgæslunnar. Flugvélardróninn, sem var við vöktun og leit á Austurlandi í sumar, hefur nú lokið hlutverki sínu hér, og við tekur vöktun á vegum Frontex í Miðjarðarhafinu.
Snorre Greil, verkefnastjóri hjá Landhelgisgæslunni, segir að góð reynsla hafi verið af notkun drónans í sumar.
Dróninn var gerður út frá Egilsstaðaflugvelli frá miðjum apríl fram í miðjan ágúst. Síðasta flug hans var 20. ágúst sl. EMSA greiddi kostnað að mestu sem hlaust af verkefninu og hleypur hann á tugum milljóna króna. EMSA býður á hverju ári ESB- og EES-þjóðum að leggja fram óskir um mismunandi gerðir dróna til notkunar í sinni lögsögu. Alls er í kringum fimm mismunandi gerðir að ræða.
„Það er hægt að óska eftir allt frá litlum þyrludróna sem mælir til dæmis loftmengun frá skipum upp í stærsta drónann sem er ætlað að hafa eftirlit á sjó, sömu gerðar og var í notkun hérlendis í sumar. Hér voru verktakar frá fyrirtækinu CEIIA á vegum EMSA sem sáu um framkvæmd og stjórnun drónaflugsins. Landhelgisgæslan var síðan rekstraraðili verkefnisins hér á landi og átti gott og farsælt samstarf við fjölmarga aðila til að þetta verkefni gæti orðið að veruleika. Isavia vegna flugöryggi og aðstöðu, Samgöngustofu vegna undanþágu fyrir flugi drónans í íslenskri lofthelgi, samskipti við Póst- og fjarskiptastofnun, Fljótsdalshérað sem veitti leyfi fyrir uppsetningu á gámum á Egilsstöðum. Einnig var samstarf milli Gæslunnar og Fiskistofu um fiskveiðieftirlit. Umhverfisstofnun og Tollstjóraembættið voru upplýst um verkefnið," segir Snorre.
Kom í veg fyrir útkall
Dróninn fann einn bát á sjó sem hafði ekki tilkynnt sig með sjálfvirkum hætti til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og kom það í veg fyrir kostnaðarsamt útkall. Þá stóð dróninn fjögur fiskiskip að meintu ólöglegu brottkasti á fiski. Um var að ræða dragnótarbát, grásleppubát og tvö línuveiðiskip. Eitt skipanna var færeyskt. Landhelgisgæslan kærði skipstjórana til lögreglu og eru þau mál í réttum farvegi og í rannsókn.
„Eftirlit af þessu tagi hefur mikið forvarnargildi, sem dæmi höfum við þær upplýsingar að ein útgerð lét þau boð út berast til sinna skipa að varpa ekki fisk í sjóinn,“ segir Snorre.
Nær helmingur lögsögunnar
Eftirlitið fór fram úti fyrir austurlandi, til norðurs og suðurs á svæði sem nær yfir um nærri helming lögsögunnar. Flogið var yfir fiskiskipum, fiskeldisstöðvum, skemmtiferðaskipum, flutningaskipum, hvalaskoðunarbátum á Skjálfanda og hjólabátum á Jökulsárlóni. Með drónanum mátti til dæmis telja fjölda farþega og fylgjast með því hvort öryggisbátar fylgdu hjólabátum eftir. Engin vanhöld voru á því. Einnig var hann nýttur til að taka upp myndband af uppsjávartorfum sem Landhelgisgæslan deildi með Hafrannsóknastofnun.
10 tímar í senn á lofti
„Það voru miklar áskoranir við að ná góðum myndum úr drónanum. Erfiðast reyndist okkur skýjafarið og þurftum við oft að hætta við flug vegna þess hve lágskýjað var. Ef lágskýjað var á flugvellinum á Egilsstöðum gátum við t.a.m. ekki farið á loft. Vindurinn gerði okkur líka erfitt fyrir. Myndavélin var ekki með fullri háskerpu og við gátum til dæmis aldrei greint andlit með búnaðinum. Dróninn er með 100 hestafla mótor og fer fremur hægt yfir eða á um 60 hnútum. Við gátum haft hann í tíu tíma í senn á lofti en reiknað hafði verið með því að hann héldi út í tólf tíma. Mest voru farin sex flug í viku.“
Drónanum var stýrt í gegnum gervitungl og einnig með beinum hætti í gegnum fjarskiptatækni í allt að 300 km fjarlægð. Fjöllin á austurlandi trufluðu þau samskipti talsvert þannig að menn urðu að reiða sig í ríkari mæli á stýringu í gegnum gervitungl. Með því móti var hægt að fljúga honum út að lögsögumörkum fyrir austan land og til baka um 600 sjómílna leið.
„Segja má því að dróninn hafi verið mjög góð reynsla fyrir Landhelgisgæsluna þessa fjóra mánuði og mun sú reynsla nýtast okkur vel í framtíðinni. Ekki hefur þó verið gerð greining á því hvort not af honum myndi réttlæta kostnaðinn við kaup á slíkum búnaði og rekstri. Við munum óska eftir drónakost af einhverju tagi frá EMSA í framtíðinni. Það er til dæmis hægt að óska eftir þyrludróna sem yrði gerður út frá varðskipi. Það er möguleiki sem við erum með til skoðunar,“ segir Snorre.