Tilgangurinn með þessum tilraunum var að kanna hvort mögulegt sé að ala loðnulirfur í eldisstöð og framleiða loðnuseiði fyrir grunnrannsóknir á loðnu sem gætu komið að gagni við rannsóknir á loðnustofninum.

Að verkefninu standa Agnar Steinarsson sjávarlíffræðingur og Tómas Árnason sjávarútvegsfræðingur og fleiri starfsmenn Hafrannsóknastofnunar koma að því. Agnar segir að ekki hafi fundist heimildir um árangursríkt kerjaeldi á loðnulirfum í erlendum rannsóknastöðvum.

„Árið 1979 voru gerðar eldistilraunir með loðnulirfur í 2.000 rúmmetra eldistjörn í rannsóknastöð norsku Hafró í Arendal í Noregi. Seiðin lifðu hins vegar aðeins í fjóra mánuði og vöxturinn var mjög hægur,“ segir Agnar.

Of smár kjaftur

Agnar gerði tilraun til loðnueldis fyrir um það bil 20 árum. Hrogn og svil voru voru kreist úr nýdauðri loðnu við löndun í Grindavík, hrognin frjóvguð og klakin í eldisstöðinni. Reynt var að ala lirfurnar á hjóldýrum en í ljós kom að þær voru of kjaftsmáar til að geta étið þau. Ekki tókst því að ala upp loðnuseiði í þessari fyrstu tilraun.

  • Tómas Árnason við vinnu sína. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Við verkefnið sem nú er í gangi nutu þeir Agnar og Tómas aðstoðar sjómanna á loðnuskipunum Kap VE og Víkingi AK sem kreistu hrogn og svil í fötur og geymdu í kæli fram að löndun. Hrognin voru frjóvguð í mars síðastliðnum og klöktust fjórum vikum síðar í 7° heitum sjó. Við klakið voru lirfurnar 6,5 mm að stærð. Þær voru fóðraðar á þörungum og svokölluðum hjóldýrum, smáum hryggleysingjum sem lifa í sjó. 100 dögum eftir klak hafði tekist að venja loðnuseiðin á þurrfóður.

„Þetta voru um 2.000 seiði og lifunin var mjög góð. Lykilatriðið í því að ala loðnu er að gefa henni lifandi fæðudýr og nægilega smá. Í þessu skyni fluttum við inn hjóldýr, þau allra smæstu sem við gátum fundið.“

Meðalvöxtur 0,37 mm

Gerðar voru margvíslegar mælingar á loðnunni, jafnt lengdarmælingar og mælingar á meltingarvirkni. Á átta mánaða tímabili frá klaki óx loðnan að meðaltali um 0,37 mm á dag og vöxturinn var nánast línulegur. Skörp þyngdaraukning varð við 100 daga aldur. Við nýjustu mælingar voru seiðin að meðaltali um 4 grömm að þyngd og rúmir 9 cm á lengd.

Eldisloðnurnar eru að vaxa mun hraðar en villt loðnuseiði og allt stefnir í það að þær muni ná 14 – 16 sm hrygningarstærð eftir rúmlega eitt ár frá klaki. Til samanburðar hrygnir villt íslensk loðna við 3 – 4 ára aldur.  „Við erum með einn hóp á 7°C og annan á 11°C og reiknum með því að fá hrygningu næsta sumar. Markmiðið er að skoða áhrif hitastigs á hrygninguna, hrognin og afkvæmin,“ segir Agnar.

Loðnan er smávaxinn fiskur og eldi á henni sérstakt þó ekki væri fyrir annað. Aðsend mynd

Í brennidepli

Loðnan er lykiltegund í vistkerfi N-Atlantshafs og er loðnustofninn að margra mati undir skýrum áhrifum loftslagsbreytinga. Agnar segir að tilgangurinn með þessum tilraunum sé að kanna hvort mögulegt sé að ala loðnulirfur í eldisstöð og framleiða loðnuseiði fyrir grunnrannsóknir á loðnu sem gætu komið að gagni við rannsóknir á loðnustofninum. Það má færa rök fyrir því að eldistilraunir gætu gefið upplýsingar sem hægt væri að yfirfæra á loðnu í villtu umhverfi. Í eldisstöðinni á Stað við Grindavík er nú verið að setja upp sérstakan rannsóknaklefa fyrir grunnrannsóknir á áhrifum hitastigs og súrnunar á sjávarlífverur enda eru slíkar rannsóknir í brennidepli vegna loftslagsbreytinga og súrnunar sjávar. Gerðar verða slíkar tilraunir með loðnulirfur á næsta ári. Einnig er stefnt að því að gera rannsóknir á aldursgreiningu, umhverfis-DNA (eDNA) og fleiri aðkallandi þáttum í loðnurannsóknum.

„Þetta eru allt rannsóknir sem geta komið að miklu gagni við rannsóknir á villtri loðnu og þróun á nýjum aðferðum við loðnuleit,“ segir Agnar.