Smábáturinn Kiddi RE, sem verið hefur atkvæðamikill á síldveiðum í net undanfarin ár, er fyrstur til að hefja veiðarnar í Breiðafirði á þessari vertíð.
Þegar vefurinn Aflafrettir.is hafði samband við Arnar Kristinsson skipstjóra var hann 0,2 sjómílur frá Skáley og hafði lítið fengið. Hann sagði að þó nokkuð lóðaði á síld en hún gæfi sig lítið í netin. Arnar var búinn að landa tvisvar, samtals tveimur tonnum, en hann var með tvær trossur og 4-5 net í trossu.
Haft er eftir Arnari að hann hafi rennt inn í Kolgrafafjörð en ekki orðið var við neina síld þar.
Af stóru síldveiðiskipunum er það að frétta að þau hafa stundað veiðar sínar djúpt úti af Snæfellsnesi það sem af er hausti. Í fyrra var síldin gengin inn í Breiðafjörðinn til vetursetu um miðjan október en nú bólar ekkert á henni í þeim mæli sem áður var. Ekki er útilokað að síldin velji sér nýjan aðalvetursetustað að þessu sinni.
Sjá nánar á aflafrettir.is